Erlent

Zuckerberg tjáir sig um Facebook-morðið í Cleveland

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Mark Zuckerberg á Facebook-ráðstefnunni í gær.
Mark Zuckerberg á Facebook-ráðstefnunni í gær. vísir/getty
Mark Zuckerberg, stofnandi og forstjóri Facebook, segir að hann og allir starfsmenn fyrirtækisins samhryggist fjölskyldu og vinum Robert Goodwin sem skotinn var til bana í Cleveland í Ohio á föstudaginn langa en morðinginn, Steve Stevens, sýndi frá morðinu á Facebook. Umfangsmikil leit fór fram að Stevens en í gær var greint frá því að hann hefði svipt sig lífi.

Í kjölfarð morðsins hefur Facebook sætt mikilli gagnrýni vegna þess hversu seint þeir fjarlægðu myndbandið af samfélagsmiðlinum en það var inni á miðlinum í um tvo tíma áður en það var tekið niður, þrátt fyrir að fyrirtækið hefði í millitíðinni kvartanir og ábendingar um myndefnið.

 

Facebook sendi frá sér yfirlýsingu þar sem því var lýst að það ætli að endurskoða verkferla varðandi það hvernig brugðist er við tilkynningum um ofbeldisfullt myndefni á miðlinum. Viðurkenndi fyrirtækið að það þyrfti að gera betur í þessum efnum og á ráðstefnu Facebook í gær sagði Zuckerberg:

„Við höfum verk að vinna og við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma í veg fyrir að svona harmleikir verði.“

Lögreglustjórinn í Cleveland, Calvin Williams, ræddi hlutverk Facebook á blaðamannafundi sem haldinn var vegna morðsins.

„Ég held að fólk viti hversu mikið vald felst í samfélagsmiðlunum og ég held að það viti líka skaðann sem þeir geta valdið. Við höfum rætt það að fólk eigi ekki að lifa lífi sínu á samfélagsmiðlum, að fólk eigi að segja satt á samfélagsmiðlum og ekki meiða aðra. Þetta er mjög gott dæmi, þetta er ekki eitthvað sem hefði átt að vera deilt með heiminum. Punktur,“ sagði Williams.


Tengdar fréttir

Facebook-morðinginn svipti sig lífi

Lögreglumenn í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum segja að Steve Stephens, sem myrti 74 ára gamlan mann og sýndi frá því á Facebook, hafi svipt sig lífi í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×