Tónlist

Það er aldrei frí

Stefán Þór Hjartarson skrifar
Eins og sjá má kemur platan út í föstu formi, sem er ekki alvanalegt í nettengdum heimi nútímans.
Eins og sjá má kemur platan út í föstu formi, sem er ekki alvanalegt í nettengdum heimi nútímans. Vísir/Ernir
„Þetta eru örugglega búin að vera mestu lífsreynsluárin sem ég hef átt hingað til – þetta er ekkert það langur tími og allt sem ég er búinn að gera, læra, sjá og fá að fylgjast með – þetta er eitthvað sem krakkar á mínum aldri myndu örugglega gera mikið til að fá að upplifa. Ég hef fengið að vinna með og kynnast fullt af ógeðslega góðu fólki. Þetta er bara yndislegt,“ segir Aron Can um árin 2016 og 2017 en hann hefur bókstaflega rokið upp á stjörnuhimininn síðan hann gaf út mixteipið Þekkir stráginn fyrir sirka ári.

Í dag kemur nýjasta platan hans, Ínótt, út á vegum Sticky plötuútgáfu og er um plötu í fullri lengd að ræða, 14 glæný lög.

Er þetta tímabil í lífi þínu það sem platan snýst um?

„Já – þetta er í raun og veru bara það. Lífið síðan allt þetta brjálæði byrjaði.“

Hversu lengi ertu búinn að vera að vinna að plötunni? Hefur allt þetta tónleikahald ekkert truflað?

„Kannski sex mánuði, allavega. Það er bara stúdíóið á hverju einasta kvöldi. Þegar við erum að taka svona „session“ eins og með þessa plötu þá get ég alveg minnkað við mig í spilamennsku í einhvern x tíma. Síðan tek ég kannski nokkur gigg og er þá ekki alveg jafn mikið uppi í stúdíói – ég þarf náttúrulega líka að bæta „showið“ mitt. Þetta er allt í hraðri þróun.“

Á plötunni eru einungis lög sem ekki hafa heyrst áður, en Aron hefur ekki tekið neitt þeirra á tónleikum hingað til. Eins og áður eru það þeir Aron Rafn og Jón Bjarni sem sjá um að smíða tónlistina með Aroni og líkt og á mixteipinu hans verða engir gestir á plötunni.

Ertu að fara í aðrar áttir með tónlistina á þessari plötu eða er þetta svipað og teipið?

„Jájá, eins og ég segi þá getur þú borið þetta saman við eldra dótið mitt – þetta er í raun og veru það sama nema miklu þróaðra, miklu vandaðra og ég er með meiri reynslu og búinn að leggja meiri vinnu í þetta. Þetta albúm er miklu meira það sem ég vil gera og miklu minna pælt út frá því sem fólk vill heyra.“

Aron segir aðspurður að því hvort þessi mikla frægð á svona stuttum tíma sé eitthvað sem hann hafi búist við, að hann hafi að vissu leyti búist við mjög góðum viðbrögðum en kannski ekki alveg eins miklum og raun ber vitni.

„Ég er búinn að gefa út eitt teip og tvo, þrjá singúla fyrir utan það og þetta er ekkert endilega það sem vanalega gerist eftir svona stuttan tíma, þetta er auðvitað það fyrsta sem ég geri. Ég bjóst við þessu en bjóst ekki við þessu svona hratt svona eftir að við gerðum Þekkir stráginn – sem við gáfum út bara tveimur dögum eftir að við bjuggum það til og þá vorum við bara „vó, búum til teip, þetta er heitt“.“

Þegar blaðamaður spyr Aron að því hvort hann fari ekki bara beint í sumarfrí eftir þessa útgáfu svarar hann án þess að hika: „Það er aldrei frí.“ Næsta verkefni er nú þegar komið vel á veg og mun að sögn Arons líta dagsins ljós í sumar.

Í tilefni af útgáfu plötunnar verður í dag og fram nótt mikil veisla sem hefst með hófi í Gallerý Porti klukkan fjögur en þaðan verður haldið í skrúðgöngu á Prikið þar sem platan verður til sölu og fagnað verður langt fram á nótt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.