Innlent

Hnífstunga á Akureyri: Úr lífshættu eftir sex klukkustunda langa aðgerð

Birgir Olgeirsson og Nadine Guðrún Yaghi skrifa
Frá sjúkrahúsinu á Akureyri.
Frá sjúkrahúsinu á Akureyri. Vísir/Auðunn
Maðurinn sem varð fyrir hnífstunguárás í Kjarnaskógi á Akureyri í gær var um sex klukkustundir í aðgerð þar sem læknar gerðu að sárum hans. Hann var stunginn tvisvar sinnum í lærið af árásarmanninum og hlaut við það slagæðarblæðingu. Hann er nú úr lífshættu að sögn lögreglunnar á Akureyri.

Guðmundur St. Svanlaugsson rannsóknarlögreglumaður á Akureyri, segir tildrög árásarinnar hafa verið með þeim hætti að rifrildi blossaði upp á milli mannsins sem varð fyrir árásinni og annars manns í Kjarnaskógi um klukkan 14 í gær.

Þegar rifrildið hafði staðið yfir í einhvern tíma dró þriðji maðurinn upp hníf og stakk fórnarlambið tvisvar í lærið.

„Hefði honum ekki verið komið á sjúkrahús hefði honum hugsanlega blætt út,“ segir Guðmundur í samtali við fréttastofu.

Sá sem er grunaður um árásina flúði af vettvangi en þegar lögreglu bar að voru þar einungis maðurinn sem varð fyrir árásinni og kærastan hans.

Lögreglan fékk ábendingu um hvar hinn grunaði héldi til, en það var í fjölbýlishúsi við Hrísalund. Þegar þangað var komið fannst maðurinn í bíl skammt frá Hrísalundi. Í bílnum fannst einnig barefli og exi.

Par var handtekið grunað um aðild að árásinni og fannst nokkuð magn af fíkniefnum í fórum þeirra. Þrír til viðbótar voru handteknir vegna fíkniefnamálsins en þeim var sleppt að lokinni yfirheyrslu.

Parinu og manninum sem er grunaður um árásina, var haldið í fangaklefa á Akureyri í nótt og verða þau yfirheyrð í dag.

Guðmundur St. segir lögreglu leita eins til viðbótar því hann gæti búið yfir upplýsingum um málið, en lögreglan leggur þó ekki ofuráherslu á það í bili þar sem hún telur sig vera búin að ná utan um þessa árás að mestu.

Ásamt því að yfirheyra manninn og parið mun lögregla einnig yfirheyra nokkur vitni í dag.

Guðmundur segir engin tengsl á milli hnífstungunnar og fíkniefnamálsins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×