Erlent

Bandaríkjaher varpar risasprengju í Afganistan

Nína Hjördís Þorkelsdóttir skrifar
MOAB eldflaug við prófun í Flórída 2003.
MOAB eldflaug við prófun í Flórída 2003.
Bandaríkjaher hefur varpað stærstu sprengju sem til er í vopnabúri hans, að kjarnavopnum frátöldum, á jarðgangasvæði ISIS í Afganistan. Pentagon fullyrti þetta í samtali við BBC.

Sprengjan sem notuð var er af gerðinni GBU-43 Massive Ordnance Air Blast Bomb (MOAB) og er í daglegu tali kölluð „móðir allra sprengja“.

Sprengja af þessari gerð hefur aldrei verið notuð í hernaði en hún var fyrst sprengd í tilraunaskyni árið 2003.

Uppfært kl. 18:00

Sprengjunni, sem vegur tæplega tíu tonn og er um níu metrar á lengd, var varpað á Achin-svæðið í Nangarhar héraði í Afganistan.

Sean Spicer, upplýsingafulltrúi Hvíta hússins, hefur fullyrt að jarðgangasvæði sem ISIS-liðar nota til þess að komast á milli staða hafi verið skotmark Bandaríkjahers.

Þá sagði Spicer að nauðsynlegar ráðstafanir hefðu verið gerðar til þess að koma í veg fyrir mannfall óbreyttra borgara og annað „óþarft tjón“.

ISIS tilkynnti í ársbyrjun 2015 að samtökin hefðu sölsað undir sig svæði í Afganistan og nærliggjandi löndum en samtökin höfðu til þessa aðeins haldið sig í Mið-Austurlöndum.

NATO áætlar að hermenn ISIS í Afganistan séu um 1000 til 1500 talsins.

Upplýsingar um tjón af völdum árásarinnar liggja enn ekki fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×