Í Facebook-færslu sinni í kvöld segir Gunnar að flokkurinn verði formlega stofnaður á verkalýðsdaginn, 1. maí, en frá og með deginum í dag geti fólk skráð sig sem stofnfélaga flokksins.
Á síðu hins nýstofnaða stjórnmálaflokks kemur fram að fyrstu baráttumál hans verði þessi:
- Mannsæmandi kjör fyrir alla landsmenn, hvort sem þeir eru launamenn, atvinnulausir, lífeyrisþegar, námsmenn eða heimavinnandi.
- Aðgengi án takmarkana að öruggu og ódýru húsnæði.
- Aðgengi án takmarkana að gjaldfrjálsu heilbrigðiskerfi, að gjaldfrjálsri menntun á öllum skólastigum og að gjaldfrjálsu velferðarkerfi sem mætir ólíkum þörfum fólksins í landinu.
- Stytting vinnuvikunnar, til að bæta lífsgæði fólksins í landinu og auðvelda því að gerast virkir þátttakendur í mótun samfélagsins.
- Enduruppbygging skattkerfisins svo auðstéttin greiði eðlilegan hlut til samneyslunnar en álögum sé létt af hinum verst stæðu.
Þá er stefna flokksins einnig útlistuð í fáeinum orðum en hann er sagður stjórnmálaflokkur almennings á Íslandi. Sósíalistaflokkur Íslands hafi þannig samfélag frelsis, jöfnuðar, mannhelgi og samkenndar að markmiði og vill öðru fremur færa völdin í hendur fólksins í landinu.