Innlent

Fá ekki að halda áfram rannsóknum án leyfis

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Rannsókn lögreglu á leiðangri og starfsemi rannsóknarskipsins Seabed Constructor er lokið. Skipið hefur fengið heimild til þess að fara frá höfn en fær ekki að halda áfram rannsóknum fyrr en leyfi hafa fengist.

Mikil leynd hefir hvílt yfir verkefnum Seabed Constructor í efnahagslögsögu Íslands. Landhelgisgæslan færði skipið til hafnar við Skarfabakka í gærmorgun en nú telur Lögreglan  á höfuðborgarsvæðinu  að hún sé komin með nægjanlegar skýringar fyrir verkefnum skipsins.

Seinni partinn í gær voru kafarar sendir til þess að skoða botn skipsins til að kanna hvaða búnaður væri undir því til að varpa frekara ljósi á þau verkefni sem það sinnir en það er meðal annars búið kafbátum til neðansjávarrannsókna.

Samkvæmt upplýsingum frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu voru þrír úr áhöfn skipsins færðir til skýrslutöku og telur lögreglan sig vera búin að upplýsa um hvaða verkefni skipið og áhafnarmeðlimir voru í þegar Landhelgisgæslan hafði afskipti af því en þá var skipið statt á slóðum að sem flutningaskipið Minden sökk í seinni heimsstyrjöldinni. Líklegt þykir að þar sé verðmætur farmur sem verið er að bjarga.

Lögmaður útgerðarinnar, Landhelgisgæslan og lögreglan sögðu í dag að málið hafi verið í samvinnu. Grímur Grímsson, yfirmaður rannsóknardeildar hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu sagði í samtali við fréttastofu að skipið hafi ekki verið haldlagt og enginn úr áhöfn þess hafi verið handtekinn. Áhöfnin hafi samþykkt að vinna með yfirvöldum að lausn málsins því hafi þeir ákveðið að vera í höfn á meðan rannsókn þess stæði yfir.

Ekki hafa fengist upplýsingar frá útgerðinni um tilgang ferða skipsins innan lögsögu Íslands og gerði fréttastofan heiðarlega tilraun til þess að ná meðal annars tali af skipstjóra rannsóknarskipsins en án árangurs.

Samkvæmt upplýsingum frá fréttastofu leið langur tími þar til Landhelgisgæslan fékk í raun að vita hvaða verkefnum skipið var að sinna. Rannsókn málsins telst nú lokið og hefur skipið fengið heimild til þess að láta úr höfn í kvöld. Með í för verða starfsmenn Landhelgisgæslunnar en skipið skildi eftir rannsóknarbúnað á vettvangi sem það hefur heimild til þess að sækja en fær ekki að halda áfram rannsóknum fyrr en leyfi hefur fengist.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×