Skoðun

Fjárfestum í framtíð Íslands

Lilja Alfreðsdóttir skrifar
Menntunarstig þjóða ræður miklu um velsæld og tækifæri þeirra. Þeim þjóðum farnast einna best til lengri tíma sem leggja mikla rækt við menntun og þekkingu. Sjálfstraust og kjarkur til framfara eykst samhliða aukinni þekkingu. Þess vegna viljum að á Íslandi séu samkeppnisfærir háskólar sem búa þjóðina undir áskoranir 21. aldarinnar.

Á Íslandi vantar fleiri vellaunuð störf fyrir ungt fólk. Slík störf verða eingöngu til ef áhersla er lögð á menntun, rannsóknir og nýsköpun. Með því að fjárfesta í menntun á háskólastigi getum við tryggt samkeppnishæfni Íslands í alþjóðlegum samanburði til framtíðar og skapað verðmæt störf um samfélagið allt.

Að óbreyttu mun það ekki gerast á næstunni, a.m.k. ef marka má áherslurnar sem birtast í 5 ára ríkisfjármálaáætlun sem ríkisstjórnin hefur lagt fram. Horfurnar framundan eru góðar ef litið er til þjóðhagsspár, þ.e. áframhaldandi hagvöxtur, hátt atvinnustig, skuldir ríkissjóðs lækka og afgangur er á viðskiptajöfnuðinum. Þrátt fyrir það stendur ekki til að fjárfesta í framtíðinni, þ.e. háskólastiginu í þeim mæli sem þarf, ólíkt því sem öll samanburðarríkin í kringum okkur eru að gera. Fjárframlög til háskólastigsins eru í engu samræmi við fyrirheit stjórnmálaflokka fyrir síðustu kosningar og algjörlega úr takti við stefnu Vísinda- og tækniráðs um að ná OECD-meðaltalinu er varðar fjárframlög á hvern háskólanema.

Nú er lag að fjárfesta til framtíðar með því að sýna metnað og stefnufestu í þágu okkar allra.

Fjórða iðnbyltingin stendur nú yfir og á næstu misserum munum við sjá miklar framfarir á mörgum tæknisviðum. Hlutfall starfa sem tengjast þessari tækniþróun mun hækka og þau hvíla fyrst og fremst á þekkingu og menntun. Ef ekki er fjárfest í menntun, rannsóknum og nýsköpun til framtíðar mun Ísland dragast aftur úr. Svo einfalt er það. Hvert ár skiptir hér máli og því er 5 ára ríkisfjármálaáætlunin reiðarslag fyrir háskóla- og vísindasamfélagið. Það er enn tækifæri til þess að gera breytingar á ríkisfjármálaáætluninni og hvet ég allan þingheim til að sameinast í að gera betur.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×