Erlent

ESB leiðtogar funda til undirbúnings fyrir Brexit viðræður

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB, á blaðamannafundi.
Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB, á blaðamannafundi. Vísir/EPA
Leiðtogar 27 ríkja Evrópusambandsins, funda í dag í Brussels, til þess að stilla saman strengi sína og ákveða að fullu stefnu sambandsins í komandi Brexit samningaviðræðum við Bretland. Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs sambandsins, segir að það sé mikilvægt að ríki sambandsins sameinist um stefnu, en almennt er talið að sambandið muni ekki sýna neina linkind í viðræðunum.

Talið er ljóst að Evrópusambandið muni fara fram á að útgönguviðræður verði kláraðar, áður en að byrjað verður að ræða fríverslunarsamning við Bretland. Bretar hafa áður sagt að þeir vilji hefja viðræður við sambandið um fríverslunarsamning, samhliða Brexit viðræðunum.

Tusk segir að réttindi borgara beggja vegna landamæranna verði að vera tryggð. Þá leggur hann áherslu á að samningar verði að nást, sama hvað, þar sem að engir samningar yrðu ekki til hagsbóta fyrir neinn.

Við viljum öll náið og gott framtíðarsamband við Bretland, á því liggur enginn vafi. En áður en við ræðum framtíðina, verðum við að gera upp fortíðina.

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hafði áður látið hafa eftir sér að „enginn samningur væri betri en vondur samningur,“ en þau ummæli vöktu áhyggjur innan herbúða Evrópusambandsins og hefur May ekki talað með slíkum hætti að undanförnu.

Þá er jafnframt búist við því að leiðtogar sambandsins muni á fundi sínum í dag, samþykkja að Norður-Írlandi fái aðild að sambandinu, um leið, ef að ske kynni að þeir myndu kljúfa sig frá Bretlandi og sameinast Írlandi.

Eldfimasti hluti viðræðnanna verður svo að öllum líkindum hluti sem fjallar um svokallaðan „útgöngureikning“ Breta. Talið er að sá reikningur muni geta hlaupið á tugum milljörðum sterlingspunda en óljóst er nákvæmlega hvernig hann verður útfærður og mun afstaða Evrópusambandsins til þess reiknings, koma í ljós á næstu dögum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×