Erlent

Tyrknesk yfirvöld loka fyrir aðgang að Wikipedia

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Á Wikipedia er hægt að lesa margt fróðlegt.
Á Wikipedia er hægt að lesa margt fróðlegt. Vísir/EPA
Tyrknesk yfirvöld hafa lokað fyrir aðgang að vefalfræðiorðabókinni Wikipedia. Um er að ræða eina af vinsælustu vefsíðum veraldar, þar sem má nálgast fróðleik um hvað eina sem tengist mannlegu samfélagi.

Óljóst er að svo stöddu hvers vegna yfirvöld hafa lokað fyrir aðgang að síðunni og hafa engar opinberar skýringar verið gefnar á banninu. Tyrknesk mannréttindasamtök, ásamt helstu fjölmiðlum þar í landi, telja að dómsúrskurður þurfi að fylgja á næstu dögum, ef bannið á að halda.

Samfélagsmiðlar í Tyrklandi loguðu eftir að ljóst var að komið hefði verið í veg fyrir aðgang almennings að síðunni og veltu margir vöngum yfir því hvort að ástæður bannsins mættu rekja til gagnrýninnar umfjöllunar um Recep Tayyip Erdogan, forseta landsins, á síðunni.

Erdogan vann mikinn sigur þann 16. apríl síðastliðinn, þegar Tyrkir ákváðu með naumum meirihluta í þjóðaratkvæðagreiðslu að auka völd hans, en niðurstaðan er mjög umdeild í landinu og hafa margir haldið því fram að framkvæmd kosninganna hafi verið ólögleg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×