Viðskipti innlent

Fasteignaverð hækkar mun meira en laun og kaupmáttur

Sæunn Gísladóttir skrifar
Spáð er áframhaldandi hækkun fasteignaverðs fram að næsta ári.
Spáð er áframhaldandi hækkun fasteignaverðs fram að næsta ári. vísir/vilhelm
Frá áramótum hefur hægt talsvert á hækkun launavísitölu og aukningu kaupmáttar launa en á sama tíma hefur fasteignaverð haldið áfram að hækka hratt. Vísbendingar eru því um aukna skuldsetningu við fasteignakaup og að bólumyndun sé að hefjast.

Fyrr í mánuðinum varaði Seðlabankinn við að hætta væri á að hátt fasteignaverð gæti leitt til aukinnar skuldsetningar sem geri heimili og fjármálafyrirtæki viðkvæmari fyrir hugsanlegu bakslagi í þjóðarbúskapnum.

„Þessi varnaðarorð Seðlabankans byggðust meðal annars á því að við vorum farin að sjá bil á milli raunþróunar fasteignaverðs og kaupmáttarþróunar launa. Þetta er vissulega í þá átt,“ segir Jón Bjarki Bentsson, hagfræðingur hjá Greiningu Íslandsbanka.

Jón Bjarki Bentsson, hagfræðingur hjá Greiningu Íslandsbanka.
Fram kemur í Morgunkorni Íslandsbanka frá því í gær að samkvæmt tölum Hagstofunnar hækkaði launavísitala um 0,4 prósent í mars. Árs hækkunartaktur vísitölunnar í mars mældist fimm prósent og hefur ekki verið hægari í tvö ár.

Kaupmáttur launa jókst um 0,3 prósent í marsmánuði, og mældist hækkunartakturinn 3,3 prósent. Það er hægasta aukning kaupmáttar í tæp tvö ár. Greiningardeildin telur að kaupmáttur og laun muni hækka eitthvað á árinu en hækkunin verði að jafnaði hóflegri í ár en í fyrra.

Því gæti myndast bóla á fasteignamarkaði þegar lengra líður og áfram er mikill munur á hækkun fasteignaverðs og launavísitölu. „Það er útlit fyrir að fasteignaverð muni áfram hækka hraðar en kaupmáttur launa næsta misseri þannig að þá er það okkar skoðun að skemmri tíma þróun verði sú að áfram verði bil þarna á milli. Á næsta ári gæti þó farið að draga aftur saman í þessum stærðum.“

Jón Bjarki bendir þó á að mikilvægt sé að hafa í huga að mun meira borð sé fyrir báru fyrir aukna skuldsetningu hjá heimilunum núna en hefur verið um langt skeið. Skuldsetning heimilanna er nú í sögulegu lágmarki. „En það er ekki ólíklegt að við sjáum núna vendipunktinn í þeirri þróun. Tíminn verður að leiða í ljós hvort við náum jafnvægi þarna á milli eða hvort skuldsetningin muni aukast,“ segir Jón Bjarki Bentsson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×