Innlent

Fjölfötluðum dreng neitað um kennslu

Sveinn Arnarsson skrifar
Kristján Logi Vestmann Kárason er ellefu ára. Hann er fjölfatlaður og þarf oft að vera lengi frá skóla vegna fötlunar sinnar.
Kristján Logi Vestmann Kárason er ellefu ára. Hann er fjölfatlaður og þarf oft að vera lengi frá skóla vegna fötlunar sinnar. vísir/auðunn
Akureyrarbær hefur synjað fjölfötluðum dreng um sjúkrakennslu sem foreldrar hans telja hann eiga rétt á samkvæmt lögum. Hafa þau kært synjun Akureyrarbæjar til mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Vera Kristín Kristjánsdóttir, móðir Kristjáns Loga, segir brotið á barni sínu.

Kristján Logi Vestmann Kárason er ellefu ára, fatlaður og algjörlega háður öðrum með hreyfingu og allar athafnir daglegs lífs. Kristján hefur í gegnum árin fengið miklar öndunarfærasýkingar og því getur hann löngum stundum ekki verið innan um önnur börn.

Soffía Vagnsdóttir, fræðslustjóri á Akureyri
Samkvæmt reglugerð um nemendur með sérþarfir er kveðið á um að nemandi, sem að mati læknis getur ekki sótt skóla vegna slyss eða langvarandi veikinda, eigi rétt á sjúkrakennslu annaðhvort á heimili sínu eða á sjúkrastofnun.

„Sonur okkar á rétt á ákveðinni þjónustu vegna fötlunar sinnar og sá réttur er óumdeildur. Akureyrarbær ákveður að neita honum um þessi réttindi sín og því getum við ekki annað en farið með málið lengra og kært það til menntamálaráðuneytisins,“ segir Vera Kristín.

Soffía Vagnsdóttir, fræðslustjóri Akureyrarbæjar, segir bæinn ekki geta veitt þá þjónustu. Hún hafi í samráði við bæjaryfirvöld viljað taka málið upp við skólastjórnendur á landinu öllu. „Sambærilegum beiðnum hefur verið hafnað annars staðar. Það þarf að ræða þessi mál og fá úr því skorið nákvæmlega hver réttur barna er,“ segir Soffía.

Þegar Kristján Logi er hress mætir hann í sérdeild við Giljaskóla á Akureyri en vegna fötlunar þarf hann oft að vera lengi frá skóla. Að mati foreldra Kristjáns Loga á hann rétt á sjúkrakennslu þar sem læknir hefur sannarlega gefið út að hann geti ekki sótt nám í skóla.

„Sonur okkar er mjög fatlaður en hefur eins og önnur börn rétt á menntun. Það kom okkur mjög á óvart að fá neitun frá bænum. Akureyrarbær hefur nú tíma til að andmæla kæru okkar. Það er krafa okkar að réttur barnsins sé virtur, að sveitarfélagið uppfylli skyldur sínar,“ segir Vera Kristín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×