Innlent

Segir að fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sé þensluhvetjandi

Höskuldur Kári Schram skrifar
Halldór B. Þorbergsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins
Halldór B. Þorbergsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins Vísir/GVA
Halldór B. Þorbergsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins gagnrýnir fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar og segir að hún kyndi undir þenslu í samfélaginu. Áfram sé gert ráð fyrir því að Ísland verði háskattaland þar sem skattbyrðin sé með því mesta sem gerist meðal ríkja OECD.

Fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar var lögð fram á Alþingi í lok síðasta mánaðar en hún nær til ársins 2022. Áætlunin gerir meðal annars ráð fyrir áframhaldandi hagvexti og að skuldir ríkisins muni lækka hratt á tímabilinu.

Halldór B. Þorbergsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins gagnrýnir þessa áætlun í pistil sem hann birti á heimasíðu samtakanna í dag. Hann telur að forsendur áætlunarinnar byggi á of mikilli bjartsýni og þá sé hún þensluhvetjandi.

„Við bendum einfaldlega á þá einföldu staðreynd að ef að hagvöxtur dregst saman um eitt prósent á ári út spátímann þá verður kominn fjárlagahalli í lok spátímabilsins. Það teljum við gagnrýnivert. Í miðju góðæri er mikilvægt að leggja til hliðar og hugsa til mögru áranna. Þetta eru bara einföld skilaboð sem allir Íslendingar skilja. Við eigum að draga úr umsvifum hins opinbera á góðæristímum og núna er rétti tíminn til þess og þetta endurspeglast ekki í fjármálaáætluninni,“ segir Halldór.

Halldór segir að skattbyrðin hér á landi sé með því mesta sem gerist meðal ríkja OECD og ekki sé lögð fram nein framtíðarsýn varðandi þróun skattkerfisins í áætlun ríkisstjórnarinnar.

„Forsendur þess til að lækka skatta til lengri tíma er að draga úr á útgjaldahliðinni. Það er fyrsta skrefið. Í bullandi hagsveiflu er rétt að gera það til þess að búa í haginn fyrir niðursveifluna sem óhjákvæmilega mun koma,“ segir Halldór.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×