„Lögreglan á sæti í ofbeldisvarnarnefnd og ég lít á það sem sameiginlegt verkefni okkar að finna leið til þess að takast á við vandamálið, mér finnst gæta breyttra viðhorfa hjá lögreglunni og er bjartsýn,“ segir Heiða.
Kynferðisglæpir á hótelum
Heiða segir ofbeldisvarnarnefnd fylgjast vel með tilkynningum um kynferðisofbeldi og glæpi til lögreglu. „Það er sjáanleg aukning hjá Neyðarmóttökunni og í því samhengi þá eru kynferðisglæpir að færast í auknum mæli inn á hótel og gististaði. Samt ítreka ég að þessir glæpir eru enn helst framdir í heimahúsi, af einhverjum sem þolandi jafnvel þekkir. En við viljum samt bregðast við þessu. Viljum fræðslu til hótel- og gistihúsarekenda.“

Hvað með þolendur, þarf ekki fyrst og fremst að vernda þá? Fara þeir ekki bara undir yfirborðið?
„Jú, það þarf að vera stefnan að aðstoða þolendur og að bjóða góða hjálp fyrir þá. Það er markmið nýrrar miðstöðvar, Bjarkahlíðar, sem var opnuð fyrr á árinu. Vændi í Airbnb-íbúðum er til dæmis hugsanlega vandamál í Reykjavík. Það er bara enginn sem veit hvort og hvernig íbúðirnar eru í útleigu. Það er erfitt að koma við eftirliti og veita þolendum aðstoð,“ segir Heiða sem segir þörf á því að framkvæma allsherjar skoðun á kynferðisofbeldi og vændi í Reykjavík út frá þolendum þess.
„En við þurfum líka að koma í veg fyrir kynferðisofbeldi, þá helst með fræðslu og góðu eftirliti og löggæslu. Ef það er ekki gert þá verða til aðstæður fyrir mansal,“ segir Heiða.
„Okkur finnst staðan í dag óásættanleg og ætlum að gera eitthvað í þessu, við finnum líka fyrir breyttu viðhorfi innan lögreglunnar til þessa málaflokks.“
Erfið sönnunarbyrði
„Það hefur ýmislegt verið reynt til að sporna við þessari starfsemi, segir Grímur Grímsson, yfirmaður miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
„Sönnunarbyrðin er ansi erfið. Það er óhætt að segja það að þeir einstaklingar sem grunur leikur á að séu í vændi, að það hefur ekki náðst að sanna það. Þá er erfitt að ná til þeirra sem grunur leikur á að séu í vændi og þessi mál eru oft þung,“ segir Grímur sem segir enn erfiðara að ná til mögulegra þolenda þegar grunur leikur á kynlífsmansali. „Oft koma þeir einstaklingar frá svæðum þar sem lítið traust er til lögreglu og yfirvalda. En þótt hlutirnir séu erfiðir og málin þung þá þarf að finna leið til að nálgast þessar rannsóknir. Ég tek undir með Heiðu, það er tilefni til þess að fara ofan í kjölinn á þessum málum og skoða eftir það hvaða aðgerða er þörf.“
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu