Innlent

Telur eðlilegt að einkafyrirtæki í heilbrigðisþjónustu hagnist á grundvelli samninga við ríkið

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra telur eðlilegt að einkafyrirtæki sem sinna heilbrigðisþjónustu á grundvelli samninga við ríkið greiði arð til hluthafa sinna ef þau skila hagnaði. Ekki hefur verið brugðist við varnaðarorðum landlæknis um vöxt einkareksturs og einkavæðingar í heilbrigðisþjónustu.

Ágreiningur er á milli landlæknis og velferðarráðuneytisins um túlkun á lögum um heilbrigðisþjónustu. Ágreiningurinn lýtur að þjónustu sem Klíníkin í Ármúla veitir.

Embætti landlæknis hefur staðfest að starfsemi Klíníkurinnar með fimma daga legudeild uppfylli faglegar lágmarkskröfur um sérhæfða sjúkrahúsþjónustu. Embætti landlæknis benti velferðarráðuneytinu á að samkvæmt skilningi þess á lögum þurfi leyfi ráðherra til þess að hefja rekstur legudeildar með tilheyrandi aðgerðum. Ráðuneytið hefur lýst því yfir að það sé ósammála túlkun embættisins og að líta beri á þennan rekstur Klíníkurinnar sem hvern annan stofurekstur lækna og þurfi hann því ekki leyfi ráðherra.

Í yfirlýsingu landlæknis frá 19. apríl segir:

„Túlkun ráðuneytisins á heilbrigðislögunum gerir það (…) að verkum að einkarekstur og einkavæðing á sviði sérhæfðrar heilbrigðisþjónustu og sjúkrahúsþjónustu getur haldið áfram að vaxa hér á landi í skjóli samnings Sjúkratrygginga Íslands og Læknafélags Reykjavíkur og sjúklinga sem greiða fyrir aðgerðir úr eigin vasa.“

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra segir að hann leggist ekki gegn því að einkafyrirtæki sem sinna heilbrigðisþjónustu á grundvelli samnings við ríkið greiði arð til hluthafa sinna ef þau skila hagnaði. 

„Á Norðurlöndunum þrífst einkaframtakið mjög vel. (...) Mér finnst menn vera komnir út á mjög hálar brautir þegar talað er um að það megi ekki greiða sér arð fyrir það að sinna verkum vel og með hagkvæmum hætti. Ef einkaaðilar geta veitt fólkinu í þessu landi jafngóða eða betri þjónustu fyrir sama verð fyrir skattgreiðandann og skilað einhverjum afgangi þá er það ekki vandamál fyrir mig. Ef að ríkið getur ekki sinnt þjónustunni fyrir sama verð og sama kostnað þá finnst mér ekkert að því að einkaaðilar geri það, jafnvel þótt þeir hafi eitthvað upp úr því,“ sagði Bjarni í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í dag.

Óttarr Proppé heilbrigðisráðherravísir/vilhelm
Ekki hefur verið brugðist við varnaðarorðum landlæknis frá 19. apríl. Óttar Proppé heilbrigðisráðherra áréttaði afstöðu ráðuneytisins varðandi leyfisveitingar til Klíníkurinnar vegna rekstrar sjúkrahúss í viðtali í Víglínunni á Stöð 2 í gær.

„Sérfræðingar ráðuneytisins túlka þetta og það er ekki pólitísk túlkun. Það er einfaldlega túlkun laganna sem okkur ber að fara eftir að það þurfi ekki sérstakt leyfi til að reka einkasjúkrahús,“ sagði Óttar.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×