Erlent

Satúrnus í návígi

Kjartan Kjartansson skrifar
Risavaxinn fellibylur í lofthjúpi Satúrnusar sem Cassini náði á mynd í fyrstu dýfunni inn fyrir hringina 26. apríl.
Risavaxinn fellibylur í lofthjúpi Satúrnusar sem Cassini náði á mynd í fyrstu dýfunni inn fyrir hringina 26. apríl. ljósmynd/NASA/JPL-Caltech/Space Science Institute
Könnunarfarið Cassini lifði af djarfa dýfu á milli reikistjörnunnar Satúrnusar og hringja hans á miðvikudaginn. Myndirnar sem geimfarið sendi til baka sýna reikistjörnuna í návígi sem aldrei fyrr.

Tólf ára leiðangri Cassini lýkur í haust en stjórnendur farsins ákváðu að gera það með pompi og prakt. Farinu var komið á braut sem liggur á milli reikistjörnunnar og hringja hennar en þetta er í fyrsta skipti sem geimfar hefur hætt sér svo nærri Satúrnusi.

Þegar farið var sem næst lofthjúpi Satúrnusar var Cassini í aðeins 3.000 kílómetra fjarlægð frá skýjunum og aðeins 300 kílómetrum frá sjáanlegri brún hringjanna, samkvæmt frétt Space.com.

Ský og rákir í lofthjúpi Satúrnusar á mynd frá Cassini.ljósmynd/NASA/JPL-Caltech/Space Science Institute
Fyrirfram vissu vísindamenn ekki hvort Cassini hefði ferðalagið af þar sem að aðstæður innan hringjanna eru tiltölulega óþekktar. Geimfarið er á svo miklum hraða, 124.000 km/klst miðað við Satúrnus, að jafnvel örsmáar agnir hefðu getað eyðilagt viðkvæm mælitæki þess.

Áður en yfir lýkur dýfir Cassini sér 21 sinni á milli hringjanna og Satúrnusar. Leiðangrinum lýkur svo 15. september þegar geimfarið steypir sér ofan í lofthjúp Satúrnusar og brennur upp.

Satúrnus og hringir hans á mynd Cassini frá 29. apríl.ljósmynd/NASA/JPL-Caltech/Space Science Institute
Ástæða þess að Cassini eru valin þessi örlög er sú að vísindamenn vilja ekki taka áhættuna á að geimfarið rekist á tunglið Enkeladus. Þar telja þeir nefnilega að fljótandi vatn sé að finna undir yfirborðinu og þar með sé möguleiki á lífi. Vilja þeir því ekki taka áhættuna á að „smita“ Enkeladus með örverum frá jörðinni sem gætu hafa lifað af utan á geimfarinu.

Óunnar myndir frá Cassini er hægt að nálgast á vefsíðu NASA um leið og þær berast.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×