Innlent

Bíða eftir fjárlögum því erfitt sé að átta sig á áætlun

Sveinn Arnarsson skrifar
Sjúkrahúsið á Akureyri.
Sjúkrahúsið á Akureyri. vísir/pjetur
Forsvarsmenn Sjúkrahússins á Akureyri hafa áhyggjur af fjárframlögum til starfsemi spítalans samkvæmt fjármálaáætlun. Raunaukning peninga til spítalans er ekki nægileg til að tryggja þá auknu þjónustu sem spítalinn veitir. Hins vegar sé erfitt að mati spítalans að lesa í áætlunina til að átta sig á áhrifum hennar á rekstur spítalans.

„Eins og þetta lítur út fyrir okkur þá er mjög erfitt að sjá hvernig fjármálaáætlun hefur áhrif á rekstur sjúkrahússins á Akureyri,“ segir Bjarni Jónasson, forstjóri SAK á Akureyri. „Það er afar erfitt að lesa út hvernig nákvæmlega þetta mun hafa áhrif, hversu mikið fer í tækjakaup og stofnkostnað eða í beinan rekstur.“

Þjónusta sjúkrahússins hefur aukist mikið síðustu ár vegna samþjöppunar heilbrigðisþjónustu á Norðurlandi, hækkaðs aldurs íbúa og aukins fjölda ferðamanna. Til að mynda voru um 5 prósent koma á bráðamóttöku á Akureyri ósjúkratryggðir einstaklingar.

„Hins vegar getum við séð að það fjármagn sem á að fara til spítalans sé ekki nægjanlegt að okkar mati. Annars er framsetning fjármálaáætlunarinnar þannig að við bíðum bara fjárlaga og í því plaggi munum við fá betri mynd af því hvernig rekstur okkar mun líta út,“ bætir Bjarni við. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×