Erlent

Tusk hvetur May til að hætta að tala gegn ESB

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Theresa May og Donald Tusk.
Theresa May og Donald Tusk. vísir/getty
Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, hvetur Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, til að láta af orðræðu sinni gegn sambandinu. Ummæli ráðherrans frá því í gær þar sem hún sakaði ráðamenn ESB um að reyna vísvitandi að hafa áhrif á bresku þingkosningarnar hafa valdið nokkrum titringi.

May lét þessi orð falla í ræðu sem hún hélt fyrir utan Downing-stræti 10 í gær en forsætisráðherrann sagði jafnframt að „embættismenn í Brussel“ vildu helst láta komandi samningaviðræður mistakast.

Tusk sagði í dag að viðræðurnar um útgöngu Breta úr ESB gætu með þessu áframhaldi orðið „ómögulegar“ þar sem Bretland og sambandið væru þannig farin að rífast áður en viðræðurnar væru hafnar.

„Þessar samningaviðræður verða nógu erfiðar eins og þær eru. Ef við byrjum að rífast áður en þær byrja þá verður þetta ómögulegt. Það er of mikið í húfi til þess að við látum tilfinningarnar hlaupa með okkur í gönur því það sem er í húfi er daglegt líf og hagsmunir milljóna manna sitt hvoru megin við Ermarsundið. Við verðum að hafa í huga að til þess við náum árangri þurfum við háttvísi, hófsemi, gagnkvæma virðingu og mikinn velvilja,“ sagði Tusk.

 

Fyrr í dag hafði forseti Evrópuþingsins, Antonio Tajani, hafnað ásökunum May um að ráðamenn hjá ESB væru að reyna að hafa áhrif á þingkosningarnar.

„Enginn er að reyna að hafa áhrif á úrslit kosninganna í Bretlandi. [...] Það er betra að hafa viðmælanda í svona viðræðum sem er ekki stöðugt að leita að atkvæðum. [...] Ef þú ert í kosningabaráttu þá verður orðræðan snarpari og grófari en ég held það sé engin spurning að það er ekki verið að reyna að hafa áhrif á kosningarnar,“ sagði Tajani.

 

Breska þinginu var slitið í gær og er kosningabaráttan í Bretlandi nú formlega hafin en kosið verður til þings þann 8. júní næstkomandi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×