Lífið

Húllumhæ í Keili í dag

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
„Hér er mikið og gott teymi sem  vinnur saman,“ segir Hjálmar sem viðurkennir þó að vera titlaður framkvæmdastjóri.
„Hér er mikið og gott teymi sem vinnur saman,“ segir Hjálmar sem viðurkennir þó að vera titlaður framkvæmdastjóri. Mynd/Arnar Hafsteinsson
Hér verður mikil hátíð og allir boðnir velkomnir,“ segir Hjálmar Árnason framkvæmdastjóri Keilis – miðstöðvar vísinda, fræða og atvinnulífs á Ásbrú í Reykjanesbæ. Tilefni hátíðarinnar er tíu ára afmæli Keilis.

Hjálmar segir Keili meðal annars hafa verið ætlað það hlutverk í byrjun að efla menntunarstig á svæðinu eftir að þar varð mikið atvinnuleysi í kjölfar þess að Kaninn fór.

„Þegar Keilir var stofnaður voru 12,8 prósent íbúa Reykjanesbæjar með háskólamenntun, nú eru þeir 28 prósent, væntanlega hefur Keilir haft þar eitthvað að segja.

Fyrirtækið er nú að velta um einum milljarði á ári en það sem mestu skiptir er að um 3.000 nemendur hafa útskrifast héðan á þessum tíu árum,“ lýsir hann.

Keilir er í raun nokkrir skólar að sögn Hjálmars. Háskólabrúin er einn þátturinn og flugakademían annar. Hann nefnir líka ævintýraleiðsögn og einkaþjálfun, einnig tæknifræði sem kennd er í samvinnu við Háskóla Íslands sem er stærsti eigandi Keilis.

Nýir kennsluhættir hafa verið innleiddir, svokallað vendinám sem gerir námið meira lifandi en ella og nemendur virkari.

Afmælishátíðin verður í Andrews-klúbbnum og hefst klukkan 15.

„Forsetinn ætlar að heiðra okkur og Valdimar, sem er eiginlega hirðsöngvari Keilis, ætlar að syngja,“ segir Hjálmar.

„Kristján Þór Júlíusson og Jón Atli háskólarektor verða með okkur og valinkunnur hópur ætlar að spá í næstu tíu ár hjá Keili. Svo eru léttar veitingar í boði.“








Fleiri fréttir

Sjá meira


×