Sport

Bjarki: Auðveldara en ég átti von á

Arnar Björnsson skrifar
Bjarki Þór fyrir bardagann.
Bjarki Þór fyrir bardagann. mynd/mjölnir/sóllilja baltasarsdóttir
Bardagakappinn Bjarki Þór Pálsson vann um helgina sinn þriðja bardaga sem atvinnumaður í bardagaíþróttum er hann mætti Alan Procter.

Bjarki Þór, sem er þrítugur, keppti í kraftlyftingum og íshokkí en heillaðist af bardagaíþróttum fyrir sjö árum.  Hann ákvað að helga sig íþróttinni, vann sinn fyrsta bardaga sem áhugamaður en tapaði öðrum bardaganum.  

Bjarki vann síðan sex bardaga og ákvað að gerast atvinnumaður og keppir í veltivigt. Hann vann hinn pólskættaða Adam Szczepaniak í júní í fyrra og fylgdi sigrinum eftir með því að vinna Englendinginn, Alan Procter í desember.  

Bjarka var dæmdur sigurinn eftir að Procter hafði rotað Íslendinginn með ólöglegu hnésparki. Um helgina mættust þeir félagar á nýjan leik.

„Hann ætlaði að slá mig niður sem fyrst. Ég var fljótur að ná honum niður í gólfið og stjórnaði bardaganum þar. Ég endaði svo með því að klára hann í annarri lotu,“ segir Bjarki en var þetta auðveldara en hann átti von á?

„Já, þetta var aðeins auðveldara sem var gott. Þetta var ekki of erfitt og ekki of auðvelt.“

Bjarki þjálfar hjá Mjölni á meðan hann reynir að klifra upp skalann í von um að komast að hjá UFC eða Bellator. Er þetta þess virði?

„Ég hef gaman af þessu. Þá er ég ekki að leggja neitt á mig. Þetta er bara það sem ég elska að gera.

Takist Bjarka ekki að komast að hjá stærra sambandi ætlar hann að vinna tvo bardaga í viðbót og fá titilbardaga hjá Fightstar-bardagasambandinu.  

„Ég hef bætt mig mikið og mun halda áfram að bæta mig.“

MMA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×