Lífið

Úr Djúpinu á diskinn

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Saxaðri steinseljunni er sáldrað hressilega yfir réttinn og dass af góðri extra virgin ólífuolíu og sítrónubátur eru borin fram með.
Saxaðri steinseljunni er sáldrað hressilega yfir réttinn og dass af góðri extra virgin ólífuolíu og sítrónubátur eru borin fram með. Vísir/Ernir
Mér fannst liggja vel við að bjóða upp á þennan rétt, hann er einfaldur að gerð en rosalega góður matur. Bláskelin er ein þeirra flottu íslensku afurða sem stóðu okkur til boða núna og við gripum tækifærið,“ segir Hákon Már Örvarsson, matreiðslumeistari á Essensia, Hverfisgötu 4-6 í Reykjavík. 

Hákon Már kveðst hafa fengið kræklinginn vestan úr Ísafjarðardjúpi, þar sem hann sé ræktaður á köðlum. 

„Þegar maður framreiðir kræklinginn með pasta verður úr honum meiri máltíð en ella og pastað hefur þann eiginleika að grípa í sig allt bragð úr því sem maður eldar með því. Hvítvínið, laukurinn og hvítlaukurinn verður allt að góðu soði sem pastað grípur, síðan gerir smjörið þetta extra ljúffengt. 

Kræklingapasta er ekta réttur núna þegar vorið og sumarið er að koma. Með því verður til máltíð án mikillar fyrirhafnar og tilvalin með hvítvíni.“

Hákon Már hefur verið viðloðandi íslensk veiðihús síðustu átta ár og er enn að reka veiðihúsið við Norðurá.

Nýlega opnaði hann veitingastaðinn Essensia við Hverfisgötuna, beint á móti Ingólfi Arnarsyni, og segir hann fara mjög vel af stað. Þar er hann með ítalskt þema. En hefur hann verið með bláskel áður á matseðlinum?

„Ég hef eldað krækling í áraraðir, líka erlendis, bjó í Lúxemborg í þrjú ár og hef verið svolítið í Frakklandi, þar er mjög mikið um þessa vöru.  Við eldum dálítið pasta hér á Essensia og bláskelin finnst mér falla mjög vel að því.“



Íslensk bláskel og pasta linguini

Fyrir fjóra

800 g fersk bláskel

400 g gott linguini-pasta, ferskt eða þurrkað

4 skalottlaukar saxaðir

4 hvítlauksrif í þunnum sneiðum

1 búnt söxuð steinselja

Örlítið af þurrkuðum chili-flögum eftir smekk

Um 300 ml hvítvín

100 g smjör í bitum

1 sítróna, skorin í sex báta

Ólífuolía

Salt eftir smekk





Hákon Már kveðst vanur að elda krækling og finnst hann falla vel að ítalska þemanu á Essensía.
Skolið og undirbúið kræklinginn. Verið viss um að skeljar séu lokaðar og tínið burt þær sem eru opnar.

Setjið linguini-pasta yfir til suðu í miklu vatni eftir leiðbeiningum á umbúðum en sjóðið það einni til tveimur mínútum skemur en segir á pakkningunni.

 Svitið laukinn, hvítlaukinn, chili-flögurnar og 2 sítrónubáta í ólífuolíu á miðlungshita.

Best er að gera þennan rétt í pönnu fyrir hvern og einn (einnig er hægt að skipta þessari uppskrift í tvennt og laga í 2 pönnum.)

Bætið við kræklingnum og hækkið aðeins hitann. Eftir skamma stund þegar góður hiti hefur myndast í pönnunni er hvítvíni skellt saman við og lok sett á pönnuna. Kræklingurinn er látinn krauma í pönnu með loki þar til hann opnast og nær eldun í gegn, um það bil tvær mínútur (fer aðeins eftir magni og hita).

Sigtið pastað úr suðuvatninu og setjið í kræklingapönnuna. Bætið smjörinu saman við og ögn af salti. Sveiflið pastanu og kræklingnum saman í pönnunni í um það bil hálfa mínútu, þá drekkur pastað í sig gott hvítvíns-kræklingasoðið og smjörið samlagast til að mynda flotta og ljúffenga áferð á pastanu.

Skiptið jafnt upp í fjórar skálar og soðinu einnig. Sáldrið saxaðri steinseljunni hressilega yfir réttinn. Dass af góðri extra virgin ólífuolíu og sítrónubátur eru borin fram með réttinum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×