Innlent

Alþingi hafi lokaorðið varðandi breytt rekstrarform framhaldsskóla

Heimir Már Pétursson skrifar
Rekstrarfélag Tækniskólans er í eigu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtaka iðnaðarins, Samorku og Iðnaðarmannafélags Reykjavíkur.
Rekstrarfélag Tækniskólans er í eigu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtaka iðnaðarins, Samorku og Iðnaðarmannafélags Reykjavíkur. Vísir/Eyþór
Þingmenn stjórnarandstöðuflokkanna hafa lagt fram frumvarp sem gerir ráð fyrir að ekki sé hægt að breyta rekstrarformi framhaldsskóla án þess að Alþingi samþykki rökstudda þingsályktun um það.

Þingflokksformaður Samfylkingarinnar segir breytingar sem þessar ekki mega ráðast af tilfinningum ráðherra hverju sinni.

Oddný G. Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, er fyrsti flutningsmaður frumvarps um breytingar á lögum um framhaldsskóla ásamt öðrum þingmönnum flokksins og þingmönnum úr hinum stjórnarandstöðuflokkunum.

Frumvarpið er einfalt og bætir tveimur nýjum málsgreinum við gildandi lög um framhaldsskóla. Þar segir að ef færa eigi opinberan framhaldsskóla í annar rekstrarform þurfi að leggja fram þingsályktunartillögu um það á Alþingi. Þá verði framhaldsskólar ekki reknir með fjárhagslegan ágóða að markmiði og óheimilt að greiða arð af rekstri þeirra.

Þannig er það reyndar í rekstri Tækniskólans í dag sem er í eigu nokkurra samtaka í atvinnulífinu.

Oddný G. Harðardóttir.vísir/Anton
Oddný segir engu að síður mikilvægt að skýra lagaumhverfið hvað þessi mál varðar.

„Og það kemur svo skýrt í ljós í þessari hugmynd menntamálaráðherrans um að renna Fjölbrautaskólanum við Ármúla undir Tækniskólann sem er einkarekinn skóli, og taka þarna tvo stönduga, sjálfbæra skóla og renna þeim saman án allrar faglegra og rekstrarlega rökskýringa,“ segir Oddný.

Á opnum fundi allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis í gær þar sem Kristján Þór Júlíusson menntamálaráðherra sat fyrir svörum nefndarfólks vegna mögulegrar sameiningar Tækniskólans og Fjölbrautaskólans við Ármúla, ítrekaði ráðherrann að ákvörðunarvaldið í þessum efnum væri hjá ráðherra.

„Lagaumhverfið er þannig að þetta getur ráðherra ákveðið sjálfur. En með frumvarpinu leggjum við til að það þurfi að ræða það á Alþingi, það þurfi ályktun Alþingis, ef fara á þessa leið og ráðherra þurfi að rökstyðja breytinguna mjög vel,“ segir Oddný.

Ein af rökum menntamálaráðherra fyrir sameiningu skólanna er að þeir leggi báðir mikla áherslu á verknám og því gæti orðið hagræði af sameiningu þeirra. Oddný segir engin rök hafa verið færð fram fyrir þessu. Tækniskólinn leggi áherslu á iðn- og tæknigreinar en Ármúli á heilbrigðisgreinar og erfitt að sjá að Tækniskólinn geti gert það betur.

Ástæða sé til að óttast fordæmisgildi ákvörðunar ráðherrans þar sem framhaldsskólarnir séu samfélagslega mikilvægir og hornsteinar byggða. Þess vegna verði Alþingi að koma að málum.

„Og ráðherrann að koma með stefnu,áætlanir. Bæði faglegar og rekstrarlegar. Það má ekki byggja á einhverri tilfinningu ráðherrans um að hugsanlega muni það ganga betur að sameina skóla eða einkavæða skóla. Það þurfi að vera fyrir því góð rök,“ segir Oddný G. Harðardóttir.


Tengdar fréttir

Áformin feli ekki í sér einkavæðingu Ármúlaskóla

Samtöl um sameiningu Tækniskólans og FÁ hófust seint í febrúar. Skólameistari Tækniskólans segir töluverða samlegð nást með sameiningu. Enginn kennari myndi missa vinnuna ef af sameiningu yrði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×