Innlent

Berufjarðarbotn boðinn út í dag

Kristján Már Unnarsson skrifar
Vegagerðin bauð í dag út endurnýjun hringvegarins um Berufjarðarbotn. Tilboð verða opnuð 20. júní og skal verkinu að fullu lokið 1. september á næsta ári. Greint var frá þessu í fréttum Stöðvar 2.

Við blasti eftir niðurskurð samgönguáætlunar í vetur að vegfarendur yrðu áfram að búa við gamla malarveginn næstu árin. 

Svavar Pétur Eysteinsson, bóndi á Karlsstöðum á Berufjarðarströnd, var meðal þeirra sem leiddu mótmælin.Mynd/Ólafur Björnsson.
Berfirðingar gripu hins vegar til mótmælaaðgerða og lokuðu hringveginum tvívegis í marsmánuði. Það varð til þess að ríkisstjórnin setti 1.200 milljóna króna viðbótarfé í vegamálin, þar af voru 300 milljónir króna merktar Berufjarðarbotni í ár.

Hringvegurinn verður styttur um þrjá kílómetra með því að leggja hann á eins kílómetra kafla yfir voginn í botni fjarðarins. Í stað átta kílómetra malarvegar verður lagður fimm kílómetra malbiksvegur. Jafnframt verður 50 metra löng brú smíðuð og 1,7 kílómetra langar heimreiðar lagðar að bæjunum Berufirði og Hvannabrekku. 

Þegar verkinu lýkur verður í fyrsta sinn hægt að aka hring umhverfis Ísland á bundnu slitlagi, þó ekki um þjóðveg 1 um Breiðdalsheiði heldur með því að aka fjarðaleiðina um Stöðvarfjörð, Fáskrúðsfjörð og Reyðarfjörð.


Tengdar fréttir

Mótmæli sveitunga munu engu breyta

Samgönguráðherra segist skilja vel gremju fólks vegna niðurskurðar á samgönguáætlun. Um 200 íbúar í Berufjarðarbotni og nærsveitum lokuðu þjóðvegi 1 í tvær klukkustundir í gær með um 60 bílum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×