Arnór Smárason lagði upp bæði mörk Hammarby í 2-2 jafntefli gegn Jönköpings Södra í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.
Arnór hefur byrjað tímabilið vel og er kominn með þrjú mörk og þrjár stoðsendingar í fyrstu 11 deildarleikjunum.
Hammarby komst yfir með marki Pa Amat Dibba á 18. mínútu en átta mínútum síðar fékk Richard Magyar rauða spjaldið og heimamenn því einum færri.
Dzenis Kozica jafnaði metin á 74. mínútu og þremur mínútum síðar kom Eric Ayuk Jönköpings yfir. Þegar mínúta var komin fram yfir venjulegan leiktíma jafnaði Mats Solheim í 2-2 eftir sendingu frá Arnóri og tryggði Hammarby stig.
Skagamaðurinn spilaði allan leikinn fyrir Hammarby líkt og Ögmundur Kristinsson og Birkir Már Sævarsson. Hammarby, sem hefur gert þrjú jafntefli í röð, er í 7. sæti deildarinnar.
Árni Vilhjálmsson var ekki í leikmannahópi Jönköpings sem er í 11. sæti.
Elías Már Ómarsson lagði upp mark IFK Göteborg í 1-1 jafntefli við Elfsborg. Þetta var önnur stoðsending Keflvíkingsins á tímabilinu.
Issam Jebali kom Elfsborg yfir strax eftir þrjár mínútur en Tobias Hysén jafnaði metin fimm mínútum fyrir hálfleik eftir sendingu Elíasar Más.
Göteborg er í 10. sæti deildarinnar með 14 stig. Elías Már og félagar hafa aðeins unnið þrjá af 10 deildarleikjum sínum í sumar.
Fótbolti