Erlent

Angela Merkel segir Evrópu verða að berjast fyrir eigin örlögum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Angela Merkel fær sér gúlsopa af bjór eftir að hún ávarpaði stuðningsmenn sína á kosningafundi í Munchen í Þýskalandi í dag.
Angela Merkel fær sér gúlsopa af bjór eftir að hún ávarpaði stuðningsmenn sína á kosningafundi í Munchen í Þýskalandi í dag. Vísir/AFP
Evrópa getur ekki lengur „stólað algjörlega“ á Bandaríkin og Bretland í kjölfar forsetakosninganna í Bandaríkjunum og úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu. Þetta sagði Angela Merkel, kanslari Þýskalands, á kosningafundi í Munchen í Þýskalandi í dag. BBC greinir frá.

Merkel sagðist áfram vilja eiga í vinalegu sambandi við bæði löndin, auk Rússlands, en að Evrópa þyrfti að „berjast fyrir eigin örlögum.“

Þessi orð kanslarans vega sérstaklega þungt í kjölfar viðræðna G7-ríkjanna um Parísarsamkomulagið í vikunni. Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hyggst tilkynna á næstu dögum um hvort Bandaríkin dragi aðild sína að sáttmálanum, sem tekur til alþjóðlegra viðbragða við gróðurhúsaáhrifum, til baka. Merkel lýsti viðræðunum sem „mjög erfiðum, ef ekki mjög ófullnægjandi.“

„Nú eru þeir tímar liðnir, er við gátum algjörlega stólað á aðra. Ég hef fengið að reyna það á eigin skinni undanfarna daga,“ sagði Merkel er hún ávarpaði samkomu á kosningafundi í Munchen í dag. 

Merkel vill nú setja samband Þýskalands við Frakkland og hinn nýkjörna forseta, Emmanuel Macron, í forgang.

Skoðanakannanir benda til þess að Angela Merkel og flokkur hennar, Kristilegir demókratar (CDU), sigri kosningarnar sem verða haldnar í Þýskalandi í september.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×