Handbolti

Aron í úrvalsliði Final Four

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Aron hefur tvisvar sinnum verið valinn besti leikmaður úrslitahelgi Meistaradeildarinnar.
Aron hefur tvisvar sinnum verið valinn besti leikmaður úrslitahelgi Meistaradeildarinnar. vísir/getty
Aron Pálmarsson er í úrvalsliði þeirra leikmanna sem hafa tekið þátt í úrslitahelgi Meistaradeildar Evrópu í handbolta undanfarin sjö ár.

Hið svokallaða „Final Four“ fyrirkomulag var tekið upp í Meistaradeildinni tímabilið 2010-11. Þá fara undanúrslitaleikirnir fram á laugardeginum og úrslitaleikurinn og leikurinn um 3. sætið á sunnudeginum.

Aron hefur sex sinnum komist með sínum liðum í Final Four; fjórum sinnum með Kiel og tvisvar sinnum með Veszprém. Ungversku meistararnir mæta Paris Saint-Germain í undanúrslitunum í ár. Í hinni undanúrslitaviðureigninni mætast Vardar og Barcelona.

Aron hefur tvisvar sinnum verið valinn besti leikmaður úrslitahelgarinnar (2014 og 2016). Í bæði skiptin var hann í silfurliði. Aron vann hins vegar Meistaradeildina með Kiel 2010 og 2012.

Aron er í afar góðum félagsskap í úrvalsliði úrslitahelgar Meistaradeildarinnar sem var birt á Facebook-síðu EHF í dag. Þar má m.a. finna fyrrverandi samherja hans; Thierry Omeyer og Filip Jicha.

Úrvalsliðið er þannig skipað:

Markvörður: Thierry Omeyer (Kiel, PSG)

Vinstra horn: Juanin García (Barcelona)

Vinstri skytta: Filip Jicha (Kiel)

Leikstjórnandi: Aron Pálmarsson (Kiel, Veszprém)

Hægri skytta: Kiril Lazarov (Ciudad Real, Barcelona)

Hægra horn: Victor Tomás (Barcelona)

Línumaður: Julen Aginagalde (Ciudad Real, Kielce)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×