Viktor Gísli sló í gegn í Olís-deild karla í vetur þar sem hann hjálpaði spútnikliði Fram að komast alla leið í undanúrslit úrslitakeppninnar. Viktor Gísli var meðal annars í miklu stuði þegar Framliðið sló Hauka út úr átta liða úrslitum.
Bjarni Fritzson, þjálfari 19 ára landsliðs karla, valdi nú síðast Vitkor Gísla í æfingahóp sinn fyrir sumarið 2017. 19 ára landslið karla tekur þátt í æfingamóti í Lubeck í Þýskalandi 29.júní til 2. júlí og fer svo á HM 19 ára landsliða í Georgíu í ágúst.
Fjórum dögum fyrr var Viktor Gísli valinn í tvo landsliðshópa eða 17 ára landsliðið og 21 árs landsliðið. Hann endaði síðan vikuna á því að vera kosinn efnilegasti leikmaður Olís-deildar karla á lokahófi HSÍ.
Viktor Gísli valinn í æfingahóp Íslands U-19, þar með er hann núna í æfingahópum Íslands U17, U19 og U21 https://t.co/8TdE9tvuH5#Handbolti
— FRAM F.C. (@framiceland) May 24, 2017
Heimir Ríkarðsson valdi Viktor Gísla í æfingahóp 17 ára landsliðs karla en liðið er nú að æfa 24. til 26. maí. Sautján ára landsliðið tekur þátt í tveimur mótum í sumar, European Open í Svíþjóð í byrjun júlí og Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar í lok júlí. Sitthvor hópurinn verður sendur á mótin með von um að skapa sem mesta breidd í aldurshópnum.
Sigursteinn Arndal og Ólafur Stefánsson völdu 23 leikmenn til undirbúnings fyrir HM u-21 árs liða sem fer fram í Alsír og hefst um miðjan júlí. Viktor Gísli er einn af leikmönnum hópsins. Liðið fer til Frakklands í byrjun júlí til frekari undirbúnings og spila auk þess vináttulandsleiki.
„Þetta þýðir að Viktor Gísli hefur núna verið valinn í U-17, U-19 og U-21 ára landslið Íslands og ljóst að drengurinn mun hafa nóg að snúast í sumar. Það er jafnframt ljóst að Viktor mun ekki vera á fullu með öllum þessum landsliðum en HSÍ mun stýra álaginu í samráði við þjálfara,“ segir í frétt um Viktor Gísla á heimasíðu Fram.
Nú er bara spurning hvort Geir Sveinsson taki strákinn inn í A-landsliðið í sumar en það stefnir allt í það að Viktor Gísli sé framtíðarmarkvörður A-landsliðsins. Það verður þó að teljast ólíklegt enda varla til uppteknari handboltamaður á landinu en einmitt Viktor Gísli.