OPEC, samtök olíuframleiðsluríkja, ákváðu í gær að framlengja samdrátt í olíuframleiðslu um níu mánuði, eða þangað til í mars á næsta ári.
Upphaflega var ákveðið að draga úr framleiðslu í desember. Var það í fyrsta skipti í áratug sem slík ákvörðun var tekin.
Samkvæmt Reuters er búist við því að olíuframleiðsluríki utan OPEC, einkum Rússland, muni standa með OPEC í von um að hækka olíuverð á ný.
Alls er dregið úr framleiðslu um sem nemur tveimur prósentum af heimsframleiðslu.
Verð á hráolíu lækkaði hins vegar við tíðindin í gær um rúmt prósent. Í frétt Reuters er sú skýring gefin á að markaðurinn hafi frekar viljað að aðgerðir OPEC yrðu hertar og framlengdar um allt að heilt ár.
Enn dregið úr olíuframleiðslu
