Erlent

Trump vill að bandamenn sínir borgi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Leiðtogar NATO-ríkjanna funda í Brussel í dag. Hér má sjá Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, og Daliu Grybauskaite, forseta Litháens, í fremri röð. Í aftari röð sitja hollenski forsætisráðherrann, Mark Rutte, og forsætisráðherra Ungverjalands, Viktor Orban.
Leiðtogar NATO-ríkjanna funda í Brussel í dag. Hér má sjá Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, og Daliu Grybauskaite, forseta Litháens, í fremri röð. Í aftari röð sitja hollenski forsætisráðherrann, Mark Rutte, og forsætisráðherra Ungverjalands, Viktor Orban. Vísir/afp
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, tjáði aðildarríkjum Atlantshafsbandalagsins á fundi í dag að þau þyrftu að borga sinn skerf af framlögum til varnarmála. BBC greinir frá.

„Þau skulda gríðarmikið af peningum,“ sagði hann, og kom þar á framfæri áhyggjum bandarískra stjórnvalda yfir því að hin NATO-ríkin láti ekki nógu háar fjárhæðir af hendi rakna til bandalagsins. Hann sagði 23 lönd hins 28-landa bandalags ekki standa sína plikt í þessum efnum.

Markmið NATO-ríkjanna, þ.e. að tvö prósent af vergri landsframleiðslu hvers ríkis renni til varnarmála, mun ekki nást fyrr en árið 2024 ef fram fer sem horfir.

Trump ávarpar fund Atlantshafsbandalagsins í Brussel í dag.Vísir/AFP
Trump minntist einnig fórnarlamba árásarinnar í Manchester og sagði að hryðjuverk yrði að kæfa í fæðingu. „Það streyma þúsundir manna inn í mismunandi lönd og dreifa sér þar, og í mörgum tilvikum höfum við ekki hugmynd um hverjir þeir eru. Við verðum að vera hörð af okkur, við verðum að vera sterk og við verðum að sýna aðgát.“

NATO hefur samþykkt að taka að sér stærra hlutverk í baráttunni gegn hryðjuverkum, sérstaklega hinu svokallaða Íslamska ríki eða ISIS. Frakkland og Þýskaland segja þó að samþykki sitt sé fyrst og fremst táknrænt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×