Innlent

Þúsund hermenn á götum Bretlands

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Þúsund hermenn voru sendir út á götur Bretlands í dag til að standa vörð við þekkt kennileiti. Hæsta viðbúnaðarstig vegna hryðjuverkjahættu ríkir í landinu en sjö hafa verið handteknir vegna sprengjuárásarinnar í Manchester á mánudag.

Theresa May varð fyrsti forsætisráðherrann til að virkja svokallaða Temperer aðgerð sem felur í sér heimild til að senda allt að fimm þúsund hermenn til að standa við hlið lögreglumanna á götum úti. Þá verður hergæsla við Wembley leikvanginn um helgina þar sem úrslitaleikurinn í enska bikarnum fer fram. Búið er að aflýsa ýmsum viðburðum líkt og skrúðgöngu Chelsea sem átti að fara fram á sunnudag til að fagna sigri liðsins í ensku úrvalsdeildinni.

Þrátt fyrir ástandið hafa farþegar ekki verið að afbóka flug frá Íslandi til Bretlands að sögn talsmanna Icelandair og WOW air. Hafa þó einhverjir sett sig í samband til að kanna aðstæður.Búið er að bera kennsl á 22 sem létust í árásinni. Þar af hafa 12 verið nafngreindir í fjölmiðlum en þeirra á meðal eru átta ára stúlka, táningar og foreldrar sem voru að sækja dætur sínar á tónleikana. Læknar sem hafa séð um fórnarlömbin greindu í dag frá því að tuttugu til viðbótar séu alvarlega særðir en alls slösuðust 64.

Sjö menn hafa verið handteknir í tengslum við málið, þar af fimm í Bretlandi auk þess sem bróðir og faðir árásarmannsins voru handteknir í Líbýu. Rannsakar lögregla nú möguleg tengsl árásarmannsins, hins 22 ára gamla Salman Abedi, við stærra hryðjuverkanet. Kosningabaráttunni fyrir komandi þingkosningar hafði verið frestað vegna árásinnar en henni verður haldið áfram á föstudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×