Nítján manns eru látnir og fimmtíu særðir eftir að mikil sprenging varð við tónleikahöllina Manchester Arena í Manchester að loknum tónleikum bandarísku söngkonunnar Ariönu Grande í kvöld. Lögregla í Manchester greindi frá þessu á Twitter í kvöld.
Sjá einnig: Það sem við vitum um sprengjuárásina í Manchester
Lögregla er með mikinn viðbúnað á staðnum og hefur hvatt almenning til að halda sig fjarri. Ekkert hefur verið sagt um hvað olli sprengingunni, en sprengjusveit lögreglunnar er nú að störfum í og í kringum höllina. Í yfirlýsingu frá Manchester Arena segir að sprengingin hafi orðið fyrir utan höllina, en fyrst fréttir hermdu að hún hafi verið í anddyri hallarinnar.
Rannsakað sem hryðjuverk
Lögregla í Manchester rannsakar málið sem mögulega hryðjuverkaárás, en í frétt NBC er haft eftir bandarískum embættismönnum að breskir starfsbræður þeirra hafi sagt þeim að sjálfsvígssprengjumaður hafi verið þarna að verki. Þetta hefur þó ekki fengist staðfest frá breskum yfirvöldum.
Á myndskeiðum úr tónleikahöllinni má sjá tónleikagesti flykkjast út.
Sprengingin var um klukkan 21:35 að íslenskum tíma, þegar tónleikunum var lokið og þegar tónleikagestir voru á leiðinni út úr höllinni. Sjónarvottar hafa lýst miklum hávaða og mikilli örtröð sem myndaðist í kjölfarið.
Fylgjast má með útsendingu Sky News að neðan.
Búið er að stöðva almenningssamgöngur í grennd við tónleikahöllina, að því er Network Rail segja á Twitter.
Fulltrúar hinnar 23 ára Ariönu Grande segja að það sé „í lagi“ með söngkonuna en að verið sé að kanna hvað hafi gerst í tónleikahöllinni.
Manchester Arena er norður af miðborginni og tekur um 21 þúsund manns.
Utanríkisráðuneytið hefur beðið Íslendinga á svæðinu um að láta aðstandendur vita af sér.
Á myndbandi sem er tekið á bílastæði skammt frá heyrist sprengingin vel auk þess að ljós birtist þegar um sjö sekúndur eru liðnar.