Innlent

Ólafur segist ekki hafa farið á bak við stjórn Neytendasamtakanna

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Formaður Neytendasamtakanna segir rangt að hann hafi farið á bak við stjórn samtakanna og ráðið sjálfan sig sem framkvæmdastjóra. Fundargerðir sanni mál hans en hann geti ekki sýnt fram á það þar sem hann er bundinn trúnaði. Hann ætlar ekki að stíga til hliðar.

Í Fréttablaðinu í dag segir að stjórnarmenn í Neytendasamtökunum sem blaðið ræddi við sjái ekki að Ólafur Arnarson geti setið áfram sem formaður þeirra en meirihluti stjórnarinnar lýsti yfir vantrausti á Ólaf á stjórnarfundi í upphafi mánaðar.

Að sögn stjórnarmanna er ástæðan fyrir vantraustinu sú að Ólafur hefur tekur ákvarðanir sem skuldbinda samtökin án þess að bera það undir stjórnina. Þá er einnig ósætti í tengslum við það hvernig Ólafur ákvað að hann skyldi hafa bifreið til afnota.

Þá greindi Rúv frá því í dag að Ólafur hafi ráðið sjálfan sig sem framkvæmdastjóra án samþykkis stjórnar. Framkvæmdastjóri samtakanna hafði hætt störfum nokkru áður en Ólafur var kjörinn formaður og ekki hafði enn verið ráðið í stöðuna. Laun framkvæmdastjóra eru mun hærri en laun formanns og þegar Ólafur undirritaði ráðningarsamninginn við sjálfan sig hafi hann bæði fengið laun sem framkvæmdastjóri og formaður.

„Þetta eru ósannar ásakanir vegna þess að það er rangt að ég hafi gert einhvern samning við sjálfan mig það er bara ekki svo. Stjórnin fékk starfskjaranefnd til að fara yfir kjör á skrifstofu neytendasamtakanna. Fjármálastjóri fékk stjórnina til að veita varaformanni samtakanna umboð til að skrifa undir slíkan ráðningarsamning við mig og einu afskipti mín af þeim samningi var þegar hann lá á borðinu fyrir framan mig og ég skrifaði undir hann“, segir Ólafur og hann bætir við að það sama gildi um bifreiðina sem hann hefur til afnota.

Ólafur segir að fundargerðir stjórnar staðfesti að ásakanirnar séu rangar. „Ég er því miður bundinn trúnaði og get ekki sýnt þær.“

Það ríkir ekki stuðningur við þig innan samtakanna, ætlar þú ekki að stíga til hliðar?

„ Ég fells nú ekki á að það ríki ekki stuðningur við mig innan samtakanna þó það sé ágreiningur í stjórninni. Ég nýt mikils trausts samtakanna. Ég hlaut yfirburða kosningu á þinginu í október síðastliðnum og ég sæki mitt umboð til þingsins og félagsmanna en ekki til stjórnar. Ég myndi líta á það sem svik af minni hálfu ef ég færi að hlaupa frá borði núna,“ segir Ólafur.


Tengdar fréttir

Deilt um smáforrit, bíl og starfskjör

Stjórnin mun koma saman á mánudag til að fara yfir stöðuna. Beðið er greiningar fjármálastjóra til að sjá hvaða áhrif ákvarðanir Ólafs munu hafa á fjárhag samtakanna.

Sögðu formanni Neytendasamtakanna upp

Stjórn Neytendasamtakanna hefur sagt upp ráðningarsamningi við Ólaf Arnarson, formann samtakanna sem starfaði jafnframt sem framkvæmdastjóri þeirra. Frá þessu var greint í kvöldfréttum RÚV en fyrr í dag bárust fregnir af því að stjórnin hefði lýst yfir vantrausti á Ólaf þann 6. maí síðastliðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×