Viðskipti innlent

WOW air opnar hjólaleigu í Reykjavík

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Skúli Mogensen, forstjóri WOW air.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Skúli Mogensen, forstjóri WOW air. Vísir/Aðsend
WOW air mun í samvinnu við Reykjavíkurborg opna hjólaleiguna WOW citybike í Reykjavík um miðjan júní.

Átta hjólastöðvar með 100 hjólum verða settar upp í eða við miðbæ Reykjavíkur og hægt verður að skila hjólinu á hvaða stöð sem er óháð því hvar það er leigt.

Þá verður hægt að hlaða niður snjallforriti sem sýnir staðsetningar stöðvanna og fjölda hjóla á hverri stöð. Greitt er með kreditkorti á leigustöðvunum en einnig verður boðið upp á áskriftarleiðir. GÁP mun sjá um viðhald á hjólunum en framleiðandinn er PBSC.

Í tilkynningu frá WOW air segir að almenningi gefist þar með tækifæri til að nýta sér umhverfisvænar samgöngur og upplifa Reykjavík frá öðru sjónarhorni.

„Hjólreiðar eru frábær ferðamáti sem hafa stöðugt verið að aukast enda bæði góðar fyrir heilsu og umhverfið. Við erum stolt af því að hafa lagt okkar að mörkum fyrst með WOW Cyclothon og núna með tilkomu WOW citybike sem án efa á eftir að setja lit á umhverfið og skapa skemmtilega og lifandi stemmningu í Reykjavík. Ég vil einnig þakka Reykjavíkurborg fyrir að vinna með okkur í að láta þennan draum rætast,“ er haft eftir Skúli Mogensen eigandi og forstjóri WOW air í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×