Erlent

Fyrrverandi einræðisherra Panama er látinn

Atli Ísleifsson skrifar
Noriega braust til valda í Panama á níunda áratug síðustu aldar með valdaráni hersins.
Noriega braust til valda í Panama á níunda áratug síðustu aldar með valdaráni hersins. Vísir/AFP
Manuel Antonio Noriega, fyrrverandi einræðisherra Panama er látinn, 83 ára að aldri. Hann gekkst nýlega undir aðgerð í kjölfar þess að hafa fengið heilablóðfall.

Noriega var um árabil mikill bandamaður stjórnvalda í Washington og braust til valda í Panama á níunda áratug síðustu aldar með valdaráni hersins, þar sem hann var foringi.

Stjórnvöld í Bandaríkjunum sáu í honum góðan bandamann í baráttunni gegn kommúnismanum en sambandið súrnaði þegar á leið og að lokum gerðu Bandaríkjamenn innrás í landið árið 1989 þar sem Noriega var handtekinn.

Hann flúði inn í sendiráð Vatikansins í borginni en snjöllum hermanni datt í hug að spila bandaríska rokkmússík á fullum styrk fyrir utan sendiráðið sem varð til þess að sendiráðsmenn sendu hann út.

Hann varði ævinni síðan að mestu í fangelsi þar sem hann afplánaði dóma fyrir morð, fjárdrátt og spillingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×