Innlent

Drengurinn sem slasaðist við Seljalandsfoss var gangandi utan merktra göngustíga

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir skrifar
Hlíðin sem drengurinn og móðir hans gengu upp sunnan meginn við fossinn.
Hlíðin sem drengurinn og móðir hans gengu upp sunnan meginn við fossinn. Lögreglan á Selfossi
Drengurinn sem slasaðist á fimmtudaginn, þegar hann féll 15 metra við Seljalandsfoss, var gangandi utan merktra göngustíga þegar slysið átti sér stað. Drengurinn er á fimmtánda aldursári og er hér á landi að ferðast ásamt foreldrum sínum sem eru frá Bandaríkjunum. Þetta staðfestir Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Selfossi í samtali við Vísi.

„Þau eru ekki á göngustíg. Þau eru komin út fyrir merkta göngustíga,“ segir Oddur og segir að enginn öryggisbúnaður hafi verið á þeim stað sem drengurinn féll.

Oddur segir að hann viti ekki til þess að það hafi verið rætt sérstaklega um nauðsyn þess að setja upp skýrari merkingar og öryggisbúnað í kjölfar slyssins. Hann nefnir að slys af þessu tagi séu óalgeng við Seljalandsfoss.

Hlíðin sunnan meginn við fossinn þar sem drengurinn féll.Lögreglan á Selfossi
Oddur segir drenginn hafa verið að príla og dottið í kjölfarið.

„Móðir hans segir að þau hafi farið saman upp brekkuna, sunnan við fossinn. Þar skilur hún hann eftir og fer niður. Þegar hún kemur niður aftur þá liggur hann neðan við brekkuna en hún sér svo sem ekki hvað gerist,“ segir Oddur og telur samkvæmt skýrslu sem lögð var fram að ekki sé vitað hvernig slysið orsakaðist nákvæmlega.

„Málið er til rannsóknar eins og önnur slys. Það er ekki grunur um neitt refsivert athæfi en okkur er skylt að rannsaka slys hvort sem það er grunur um refsivert athæfi eða ekki. Þá fer fram þessi grunnrannsókn en hún er ekki flókin í þessu máli,“ segir Oddur.

Í tilkynningu, sem fréttastofu barst í gær, segir að drengurinn sé líklega fótbrotinn eftir fallið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×