Skoðun

Beint lýðræði í menntamálum

Halldór Auðar Svansson og Þórlaug Ágústsdóttir skrifar

Beint lýðræði snýst um að þú getir haft bein áhrif á það sem skiptir þig máli. Beint lýðræði snýst ekki um að hafa skoðun á öllu alltaf, heldur að geta haft áhrif á það sem skiptir mann máli.



Núna stendur yfir mótun menntastefnu Reykjavíkurborgar og í fyrsta sinn er þér; borgaranum, boðið með. Stefnumótunin fer fram í víðtæku samráði við fagmenn, starfsfólk borgarinnar, foreldra og nemendur sjálfa og nær yfir alla starfsemi skóla- og frístundasviðs borgarinnar, leikskóla, grunnskóla og frístund. Útgangspunktur stefnunnar er sú færni sem nemendur eiga að hafa öðlast árið 2030. Hvað á nemandi að kunna við útskrift? Á Betri Reykjavík, lýðræðisgátt Reykjavíkur, getur þú haft aðkomu með ýmsum hætti; mótað tillögur, forgangsraðað verkefnum og svokölluðum færniþáttum og tekið þátt í umræðum.



Liður í samráðsferlinu er að opnað hefur verið fyrir forgangsröðun færniþátta á Betri Reykjavik (betrireykjavik.is). Einnig getur almenningur lagt fram sínar eigin hugmyndir að færniþáttum og rökrætt þær fram og til baka. Þetta rímar vel við stefnu Pírata, sem borgin er nú að gera að sinni, að vefkerfi eins og Betri Reykjavík eigi að nota í meiri mæli til að fá fram álit á þeirri stefnumótun og ákvarðanatöku sem eru í gangi hjá borginni hverju sinni. Nú þegar þekkir fólk ágætlega til árlegrar hugmyndasöfnunar um framkvæmdir í hverfum á Betri Reykjavík, Hverfið mitt, og hefur það notið vaxandi vinsælda. Í fyrra var kosningaþátttaka í Hverfinu mínu 9,4 prósent og hefur aldrei verið hærri. Lykillinn að velgengni þessari er sennilega sú að þarna er hugmyndasöfnunin – lýðræðið – beintengd við stjórnsýslu borgarinnar; fólk hefur raunveruleg áhrif á það sem borgin gerir og sér árangur af því að taka þátt. Framtíðin í stjórnsýslu felst í lifandi samtali við almenning í gegnum vefinn og Reykjavíkurborg ryður þar veginn. Hvernig sérð þú fyrir þér skólakerfið árið 2030? Taktu þátt á Betri Reykjavík – samráð stendur yfir til 10. júní.

 



Halldór Auðar Svansson er borgarfulltrúi Pírata. 

Þórlaug Ágústsdóttir er fulltrúi Pírata á skóla- og frístundasviði Reykjavíkur.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×