Innlent

Umhverfisráðherra um ákvörðun Trump: „Við höldum ótrauð áfram“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra.
Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra. vísir/anton brink
Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, segir ákvörðun Donalds Trump, Bandaríkjaforseta, um að draga Bandaríkin út úr Parísarsamkomulaginu mikil vonbrigði. Hún segir þó nú enn brýnna en áður að aðrar þjóðir taki höndum saman og haldi ótrauðar áfram í baráttunni gegn gróðurhúsaáhrifum.

„Þetta eru mikil vonbrigði, að ein stærsta þjóð í heimi skuli draga sig út,“ segir Björt Ólafsdóttir, umhverfisráðherra, í samtali við Vísi. Hún segir þó um leið að athyglisvert hafi verið að fylgjast með viðbrögðum annarra þjóða í aðdraganda tilkynningarinnar.

„Það er jafnframt athyglisvert og gott að sjá að aðrar stærri þjóðir eins og Kína hafa verið að þétta raðirnar með Evrópusambandinu og standa fast á því að við framfylgjum Parísarsamkomulaginu.“

Donald Trump er ekki einráður

Donald Trump hefur ítrekað gagnrýnt samkomulagið og ákvörðun hans um að draga Bandaríkin út úr því virðist ekki hafa komið heimsbyggðinni á óvart. Björt segir mikilvægt að muna að Bandaríkjaforseti sé ekki einráður í viðbrögðum við loftslagsbreytingum.

„Hann er ekki einráður um losun gróðurhúsalofttegunda frá Bandaríkjunum og það sem við höfum verið að sjá er að atvinnulífið er á móti honum. Atvinnuvegir í Kaliforníu og Flórída hafa vitað það að fyrirtæki eiga mjög mikið undir því að vera umhverfisvæn og loftslagsmeðvituð vegna þess að neytendur kjósa slíkar vörur og kjósa að skipta við þannig fyrirtæki.“

Hún bindur miklar vonir við það að Bandaríkjamenn fari ekki á sveif með forsetanum.

„Hreinlega út af því að fólk veit betur. Og það er ljóstýra,“ segir Björt.

En hvaða áhrif mun úrsögn Bandaríkjanna úr Parísarsamkomulaginu hafa á stefnu Íslendinga í loftslagsmálum?

„Ísland kvikar ekkert frá sinni stefnu heldur þéttir raðirnar með öðrum, við erum búin að undirrita Parísarsamkomulagið. Ef eitthvað er þá viljum við gera enn betur við þessi tíðindi og vera í enn meira samstarfi við hinar fjölmörgu þjóðir sem átta sig á vandanum,“ segir Björt.

„Það er á hreinu að við viljum standa saman í áframhaldinu. Við lýsum yfir vonbrigðum yfir því að Trump hafi tekið þessa ákvörðun. Við höldum ótrauð áfram.“


Tengdar fréttir

Parísarsamkomulagið er sagt í hættu

Donald Trump er sagður vilja draga Bandaríkin út úr Parísarsamkomulaginu. Evrópa býst við að leiða baráttuna gegn loftslagsbreytingum. Framkvæmdastjóri SÞ segir málið vandamál allra. Óljóst er hvernig Bandaríkin gætu dregið sig út




Fleiri fréttir

Sjá meira


×