Innlent

Segir að spítalastjórn muni hafa jákvæð áhrif á starfsmenn

Höskuldur Kári Schram skrifar
vísir/vilhelm
Formaður Prófessoraráðs Landspítalans segir að fagleg yfirstjórn myndi styrkja starfsemi spítalans og draga úr hvers konar óánægju meðal starfsmanna. Of mikill tími æðstu stjórnenda fari í að afla spítalanum fylgis hjá stjórnvöldum.

Hugmyndir eru uppi um að skipa sérstaka stjórn yfir Landspítalanum og er ekki útilokað að þingsályktunartillaga þessa efnis verði lögð fram á Alþingi næsta vetur.

Skiptar skoðanir hafa verið um málið en bæði landlæknir og ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa tekið vel í þess hugmynd. Það gerir Prófessoraráð Landspítalans einnig sem sendi frá sér ályktun um málið í dag.

Björn Rúnar Lúðvíksson formaður ráðsins segir að öflug stjórn skipuð fagaðilum muni styrkja stjórnkerfi spítalans.

„Of mikill tími okkar æðstu stjórnenda fer í það að afla spítalanum fylgis hjá hinu opinbera í staðinn fyrir að einblína á innra starf og styrkja starfsemina. Þannig að faglega öflug stjórn, eins og þekkist víða erlendis, myndi eingöngu styrkja spítalann. En hún yrði að vera fagleg,“ segir Björn.

Í fréttum Stöðvar 2 í gær var fjallað um óánægju meðal yfirmanna á rannsóknarsviði spítalans sem vilja fá fagstjórn til að leysa úr ágreiningsmálum við yfirstjórnendur. Björn segir að sérstök spítalastjórn gæti tekið á svona málum.

„Ég held að það sé alveg ljóst að með því að styrkja stjórnkerfi spítalans og að öflug stjórn myndi styrkja frekar rekstrarafkomu spítalans. Það myndi hafa verulega jákvæð áhrif á alla starfsemi,“ segir Björn. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×