Lífið

Sumarspá Siggu Kling - Bogmaður: Leyfðu þér að vera svolítið í sviðsljósinu

Elsku Bogmaðurinn minn, þú leggur svo mikla orku í að gera allt vel og ná árangri og þú hefur bæði hæfileika til að vera undirmaður og yfirmaður. Það er hins vegar alveg öruggt að þú átt eftir að vera sjálfstæðari en þú nokkurn tímann hélst.

Það sem stoppar þig stundum er að þér hættir til að setja annað fólk í lífinu þínu á of háan stall og finnast það vera svo miklu merkilegra en þú og það sem í þér býr. En ef þú skoðar hlutina vel þá hefur þú meiri hæfileika en þú getur ímyndað þér og ef þú myndir peppa þig jafnmikið upp og þú reynir að peppa upp fólkið í kringum þig, þá myndi ekkert stoppa þig!

Það er í eðli þínu að hjálpa öðrum og þú gerir það af svo mikilli ástríðu að þú tæmir tankana þína. Í þér býr svo mikill sálfræðingur að ef þú bara notaðir sömu frasa á sjálfan þig og þú reynir á aðra þá færir þú strax í fyrsta sætið!

Það er mikilvægt fyrir þig í sumar að leyfa þér að vera svolítið í sviðsljósinu en samt að rækta einfarann í þér; finna leið til að hafa algjöran frið í kringum þig, því þannig fyllist þinn orkutankur. Þú elskar jafnvægið milli ljóss og myrkurs svo veturinn er sá tími sem þú kemur öllu í verk, þess vegna á sumarið að vera meira og minna frí og sá tími þar sem þú gerir það sem þú elskar og ert spenntur fyrir.

Þú getur náð árangri í hvaða keppni sem er, ef þú bara setur hugann í það. Þú hefur miklu meira úthald en hin merkin svo hentu þér út í djúpu laugina. Að taka áhættu er það sem byggir upp bogmanninn, ef þú tekur enga áhættu þá fyllist þú andleysi og finnur ekki tengingar.

Peningar, sem eru jú bara jákvæð orka, eru að koma til þín. Þeir verða svo miklu meira í kringum þig heldur en áður og þú átt eftir að finna vel að þér finnst rosalega gaman að eyða peningum. Þú skalt stökkva á framkvæmdir og ferðalög því allt á eftir að greddast (dregið af orðinu „reddast“ sem er uppáhaldsorðatiltæki okkar Íslendinga).

Í ástamálunum getur þú náð þér í hvaða manneskju sem er, þú hefur nefnilega svo tindrandi húmor og aðdráttarafl. Og þá skiptir engu máli hvort þú sért 1,50 m eða 2,10 m hár, því þetta býr allt í huganum. Þú hefur þann áhrifamátt að geta sannfært fólk um að leggja þér lið og hjálpa þér í þeim verkefnum sem þú vilt vinna.

Mottó: Slepptu þrjóskunni og notaðu lipurð frekar!



Frægir Bogmenn: Ingvar E. Sigurðsson leikari, Björgvin Franz Gíslason leikari, Edda Heiðrún Backman leikkona, Regína Ósk Óskarsdóttir söngkona, Sigrún í Gyðja Collection, Steindi, Bryndís Ásmundsdóttir, leik- og söngkona, Jóhanna Vilhjálmsdóttir, fjallkona og leikkona, Logi Bergmann Eiðsson sjónvarpsmaður, Jói á Fabrikkunni, Sigga Dögg kynfræðingur, Hemmi, hársnillingur á Módus, Lovísa, hönnuður hjá Kjólar og konfekt.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.