Innlent

Ber að laga mismunun lesbía

Snærós Sindradóttir skrifar
Dómsmálaráðherra er falið að breyta reglugerð svo að lesbískar mæður þurfi ekki að ráðast í óþarfa skriffinnsku lengur.
Dómsmálaráðherra er falið að breyta reglugerð svo að lesbískar mæður þurfi ekki að ráðast í óþarfa skriffinnsku lengur. NordicPhotos/AFP
Þingsályktunartillaga þess efnis að tryggja verði jafnræði með foreldrum í skráningu hjá Þjóðskrá var samþykkt á Alþingi í gær. Með henni er dómsmálaráðherra falið að setja reglugerð þar sem „afnumin verði sú mismunun sem á sér stað gagnvart mæðrum í samkynja hjúskap eða sambúð“.

Fréttablaðið greindi ítarlega frá mismununinni í september 2015. Þá kom fram að öllum lesbískum mæðrum bæri skylda til að skila inn vottorði til Þjóðskrár, þess efnis að barn þeirra væri getið með gjafasæði. Hið sama gilti ekki um gagnkynhneigð pör þar sem barn væri getið með gjafasæði. Kona í sambúð eða hjónabandi með konu, sem ól barn, var ekki sjálfkrafa skráð móðir barns ólíkt því sem tíðkaðist í gagnkynhneigðum hjónaböndum. Væri barn getið með öðrum hætti en með gjafasæði hjá heilbrigðisstofnun er gerð krafa um að barn sé feðrað.

Þá sagði Margrét Hauksdóttir, forstjóri Þjóðskrár, að stofnunin vildi gjarnan að reglunum væri breytt en til þess þyrfti breytingu á barnalögum. Í greinargerð þingsályktunartillögunnar segir að Þjóðskrá hafi ekki sýnt neina tilburði til að breyta verklagi sínu. Ekki verði fallist á þau sjónarmið sem haldið hefur verið fram af hálfu stofnunarinnar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×