Utanríkisráðherra hefur boðið grænlenskum stjórnvöldum aðstoð vegna flóðbylgjunnar sem gekk yfir þorp á vesturströnd landsins. Hann segir hug íslensku þjóðarinnar með Grænlendingum.
Fjögurra er saknað í þorpinu Nuugaatsiaq eftir að flóðbylgja og sjávarflóð fylgdu jarðskjálfta sem reið yfir seint í gærkvöldi. Skjálftinn var fjórir að stærð. Lögreglan á Grænlandi segir að ellefu húsum hafi skolað á haf út. Íbúar í þorpinu hafa verið fluttir burt.
Norska ríkisútvarpið NRK segir að einhverjir af þeim sem hafa verið fluttir af svæðinu séu slasaðir, þar af tveir alvarlega.
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherrar, segir að Grænlendingar hafi verið þakklátir boði íslenskra stjórnvalda. Ekki liggi hins vegar fyrir hvort þeir ætli að þiggja hana. Þá er ekki talið að neinir Íslendingar hafi verið á svæðinu.
Í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 sagði Guðlaugur Þór ennfremur að hugur íslensku þjóðarinnar væri með Grænlendingum enda þekki báðar þjóðir náttúruhamfarir vel.
