Íslenski boltinn

Grétar Sigfinnur: Það var ekkert í gangi hjá KR | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Grétar Sigfinnur Sigurðarson þreytti frumraun sína í Pepsi-mörkunum á Stöð 2 Sport HD í gærkvöldi og þurfti að láta sína gömlu félaga í KR heyra það eftir 3-1 skell í Eyjum.

KR er búið að tapa tveimur leikjum í röð og er í tíunda sæti deildarinnar með sjö stig eftir sjö umferðir. Fyrsta mark ÍBV kom eftir aukaspyrnu sem miðvörðurinn var ánægður með.

„Þetta er beint af æfingasvæðinu. Gunnar Þór er að gæta Andra en lendir í „blokki“ og Andri skorar. Þetta er frábærlega gert hjá ÍBV,“ sagði Grétar áður en hann tók svo KR í gegn.

„Það er erfitt að mæta til Eyja og mæta í þá baráttu sem er oftast til staðar þar. Hins vegar hef ég líka oft verið í leik þar sem við höfum lent undir en þá komum við bara til baka,“ sagði hann.

„Það var bara ekki nógu mikið í spilunum hjá KR. Þótt að það hafi komið mark frá Tobiasi fannst mér ekkert í gangi hjá honum. Kennie Chopart og Óskar Örn, sem eiga að halda uppi sóknarleiknum, voru ekki að finna sig. Báðir fá dauðafæri og þruma á markið í staðinn fyrir að leggja boltann inn. Mér fannst ekkert ganga upp hjá KR,“ sagði Grétar Sigfinnur Sigurðarson.

Alla umræðuna má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×