Erlent

Varaforsetinn ræður sér lögfræðing

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna.
Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna. vísir/EPA
Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, hefur ráðið sér sinn eigin lögfræðing vegna rannsóknar á afskiptum Rússa af forsetakosningunum þar í landi og hugsanlegum tengslum starfsteymis Trump við þau afskipti. CNN greinir frá.

Í tilkynningu frá samskiptafulltrúa Pence kemur fram að Pence hafi ráðið sér lögfræðing sér til aðstoðar við að svara spurningum hins sérstaka saksóknara sem fer með rannsókn málsins. Hann vonist til þess að málinu ljúki sem fyrst.

Tilkynningin kemur einungis degi eftir að greint var frá því að rannsókn hefur hafist á því hvort að Trump hafi reynt að hindra framgang réttvísinnar með ákvörðun sinni um að reka James Comey úr embætti forstjóra alríkislögreglunnar. Trump brást ókvæða við þeirri ákvörðun og sagði að um gervifréttir væri að ræða.

Rannsókn hins sérstaka saksóknara er í fullum gangi en í ljós hefur komið að Jeff Sessions, dómsmálaráðherra, sagði ekki satt í svörum sinum til þingnefndar um samskipti sín við hagsmunaaðila tengdm Rússum í aðdraganda forsetakosninganna á seinasta ári.

Pence hefur alla tíð staðið með fullyrðingum Trump, sem hefur sagt ítrekað að hann tengist ekki á nokkurn hátt umræddum afskiptum Rússa af forsetakosningunum í fyrra.


Tengdar fréttir

Repúblikanar hafna því að Trump hafi hindrað framgang réttvísinnar

Formaður landsnefndar Repúblikanaflokksins sakar sérstakan rannsakanda dómsmálaráðuneytisins um "staðlausar ásakanir“ um að Donald Trump sé til rannsóknar fyrir hindrun á framgangi réttvísinnar. Repúblikanar telja að eini glæpurinn sem hefur verið framinn séu "ólöglegir lekar“.

Trump grípur enn til gervifréttavarnarinnar

Bandaríkjaforseti segir frétt Washington Post um að hann sé til rannsóknar vegna þess að hann kunni að hafa hindrað framgang réttvísinnar sé "gervifrétt“. Reuters hefur hins vegar fengið aðra staðfestingu á frétt blaðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×