Viðskipti innlent

Eignarnámið vegna Kröflulínu innan ramma laganna

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Eitt af möstrum Kröflulínu 4 rís á móts við Gæsafjöll.
Eitt af möstrum Kröflulínu 4 rís á móts við Gæsafjöll.
Landsneti hf. er heimilt að framkvæma eignarnám vegna lagningar tveggja 220 kV háspennulína, nefndar Kröflulínur 4 og 5, sem ráðgert er að muni liggja samsíða í óskiptu landi Reykjahlíðar í Skútustaðahreppi.

Þetta er niðurstaða Hæstaréttar sem staðfesti í dag niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í mars síðastliðnum.

Undirbúningur að framkvæmdum tengdum lagningu Kröflulína 4 og 5 hefur staðið í langan tíma, en með þeim hyggst Landsnet tengja iðnaðarsvæði á Bakka við Húsavík og Þeistareykjavirkjun við Kröfluvirkjun.

Í því skyni að semja við landeigendur Reykjahlíðar um lagningu línanna um jörðina boðaði lögmaður Landsnets fyrirsvarsmanni einkahlutafélagsins Landeigendur Reykjahlíðar ehf., sem er að öllu leyti í eigu þinglýstra landeigenda Reykjahlíðar, til funda árið 2014.

Þar var því lýst að tilgangur þeirraværi einkum sá að hefja samningaviðræður við landeigendur með því að kynna „fyrirhugaða framkvæmd, drög að samkomulagi ásamt tillögu að uppgjöri bóta.“

Sjá einnig: Eignarnám heimilað vegna Kröflulínu

Á fundi 6. október 2014 undirrituðu fulltrúar landeigendafélagsins undir tilboð Landsnets vegna óskipts lands Reykjahlíðar en síðar kom í ljós að félagið skorti umboð tíu landeigenda að jörðinni. Í kjölfarið tóku við tilraunir til að boða til nýrra sáttafunda en mæting landeigenda var stopul.

Því leitaði Landsnet, að loknu löngu samningaferli, eftir heimild atvinnuvega og nýsköpunarráðuneytisins til eignarnáms sem það veitti í október síðastliðnum. Þessa heimild kærðu tveir landeigandanna og var þeim dæmt í óhag í héraðsdómi.

Héraðsdómur Reykjavíkur segir að Landsnet hafi reynt með fullnægjandi hætti að semja við landeigendurna bæði fyrir og eftir að beiðni um eignarnám var lögð fram. Þá hafi þeir fengið næg tækifæri til að koma að andmælum vegna eignarnámsins.

Hæstiréttur hefur nú staðfest þann dóm sem fyrr segir. Er landeigendunum gert að greiða Landsneti og íslenska ríkinu hvoru um sig milljón krónur í málskostnað.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×