Erlent

Yfir þúsund mótmælendur handteknir á þjóðhátíðardegi

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Sjónarvottar lýstu því hvernig fólk var fjarlægt af handahófi.
Sjónarvottar lýstu því hvernig fólk var fjarlægt af handahófi. vísir/epa
Áætlað er að rúmlega þúsund mótmælendur hafi verið handteknir í Moskvu og St. Pétursborg á þjóðhátíðardegi Rússlands í gær. Fólkið hafði komið saman til að mótmæla stjórnvöldum.

Þúsundir manna komu saman á götum borganna tveggja og eru þá ótaldir aðrir mótmælendur í öðrum borgum. Rúmlega 5.000 mótmæltu í Moskvu og á fjórða þúsund í St. Pétursborg. Um 500 manns voru handteknir á hvorum fundi fyrir sig samkvæmt tölum frá lögreglu. Tölur lögreglunnar stemma ekki við tölur óháðra aðila.

Alexei Navalny sést hér lengst til vinstri.VÍSIR/EPA
„Óeirðalögreglumenn ganga hér inn í hópinn og handtaka mótmælendur, að því er virðist af handahófi,“ sagði Sarah Rainsford, fréttaritari BBC, í útsendingu fréttastofunnar.

Forsprakki mótmælanna, og einn helsti andstæðingur Vladimírs Pútín Rússlandsforseta, Alexei Navalny, komst aldrei á staðinn. Lögreglumenn meinuðu honum útgöngu af heimili sínu skömmu áður en mótmælin hófust. Navalny, sem er staðráðinn í að bjóða sig fram sem forseti á næsta ári, notar netið og samfélagsmiðla til að ná til fólks. Hann hafði kallað eftir því að fólk færi út á götur og mótmælti spillingu í stjórnkerfinu.

„Ég vil breytingar. Ég vil lifa í nútíma lýðræðisríki. Ég vil að skattarnir okkar verði að vegum, skólum og sjúkrahúsum en ekki lysti­snekkjum, lúxusvillum og vínekrum útvaldra,“ sagði Navalny í einu slíku myndbandi sem birtist í mars.

Að sögn sjónarvotta voru mótmælin óvenjuleg. Fyrir á svæðinu var fjölskyldufólk samankomið til að fagna þjóðhátíðardeginum. Skyndilega voru mótmælendur mættir á svæðið. Fast á hæla þeim fylgdu lögreglumenn gráir fyrir járnum.

Mótmælafundurinn hafði ekki fengið grænt ljós frá stjórnvöldum og voru gestir fundarins meðvitaðir um að þeir gætu endað hann í járnum. Þeim virtist standa á sama og vildu láta rödd sína heyrast. Hróp og köll á borð við „Pútín, þjófur!“ og „Rússland mun verða frjálst á ný!“ ómuðu um strætin áður en mótmælin voru stöðvuð.

Stjórnvöld höfðu veitt leyfi til að halda fundi í 169 borgum víða um land. Navalny hafði sjálfur sótt um leyfi og fengið en ekki líkað staðsetningin sem honum var boðið upp á. Hann færði því fundinn einhliða með áðurgreindum afleiðingum. Seint í gær var Navalny dæmdur í þrjátíu daga stofufangelsi fyrir að brjóta ítrekað gegn reglum um fundahald.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×