Innlent

Ætla að fækka nemendum við Melaskóla

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Í fréttum Stöðvar 2 á fimmtudag var sagt frá lélegum aðbúnaði og plássleysi í Melaskóla en nemendum við skólann hefur fjölgað hratt.

Foreldrafélagið hefur sent ályktanir til skóla- og frístundaráðs þar sem óskað er eftir lausn mála, til dæmis með nýrri viðbyggingu og aðstöðu fyrir fötluð börn en hún er engin í dag.

Skúli Helgason formaður Skóla- og frístundaráðs segir að farið hafi verið yfir leiðir til að nýta húsnæðið betur, nærliggjandi byggingar og til dæmis sjálft Hagatorgið sem er við hlið skólans og gæti nýst sem leiksvæði.

„Það var vilji skólastjórnenda að nýta ekki nærliggjandi húsnæði og setja elsta árganginn í Vesturgarð eða íþróttahús Hagaskóla. Það hefði verið lausn en við virðum vilja skólans að skipta ekki nemendahópi upp. Það er mikilvægt að aðgerðir séu í góðu samstarfi við þá sem stýra skólanum."

Skúli segir að einnig verði fjallað um viðbyggingu við Melaskóla við yfirferð fjárfestingaráætlunar borgarinnar í lok árs.

„Skóla - og frístundaráð hefur sett í forgang varðandi fjárfestingaáætlun að byggt verði við Melaskóla," segir Skúli. 

Í þriðja lagi hafi skólahverfamörkin verið endurskilgreind til að fækka nemendum við skólann sem skili sér í færri nemendum næsta haust.

„Það er aðgerð sem var samþykkt fyrr á þessu ári. Það hjálpar eitthvað til. Það eru um og yfir hundrað börn í skólanum sem eru ekki í þessu skólahverfi og það er verið að taka fyrir það, til að koma til móts við þessa stöðu."


Tengdar fréttir

Foreldrafélagið segir Melaskóla vera að grotna niður

Nemendur eru hundrað fleiri í Melaskóla en húsnæðið gerir ráð fyrir. Foreldrar nemenda kvarta undan aðstöðuleysi í kennslu, lélegu viðhaldi á húsnæði og framtaksleysi borgaryfirvalda. Þá er ekki aðgengi fyrir fötluð börn í skólanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×