Erlent

Frakkar bjóða loftslagsvísindamenn velkomna

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Emmanuel Macron, forseti Frakklands.
Emmanuel Macron, forseti Frakklands. Vísir/EPA
Frönsk stjórnvöld hafa ákveðið að bjóða bandarísku vísindafólki, nemum, kennurum og fyrirtækjum, sem vilja taka slaginn gegn loftslagsbreytingum, að búa og starfa í landinu. Ákvörðunin kemur í kjölfar þess að Donald Trump ákvað að þjóð hans myndi ekki taka þátt í Parísarsamkomulaginu.

Planið nær að vísu ekki aðeins til bandarískra ríkisborgara heldur geta allir nýtt sér það. Upplýsingar um það má finna á heimasíðunni MakeOurPlanetGreatAgain.fr.

Þeir sem þiggja boðið fá fjögurra ára styrk frá ríkinu til að halda rannsóknum, kennslu eða námi sínu áfram. Þá er á síðunni einnig að finna upplýsingar um hvernig skuli sækja um atvinnu- og dvalarleyfi.

„Þú munt geta dvalið í Frakklandi út gildistíma styrksins hið minnsta og lengur ef þér býðst varanleg staða að því loknu. Maki þinn getur búið og starfað í Frakklandi. Almenningsskólar í Frakklandi eru ókeypis og skráningargjöld í franska háskóla eru mun lægri en þú átt að venjast í Ameríku,“ segir meðal annars á heimasíðunni.

Emmanuel Macron, forseti Frakklands, náði kjöri 7. maí síðastliðinn. Áður en tilkynnt var um áætlunina hafði myndband flogið hátt á samfélagsmiðlum. Þar lofaði hann því að svara niðurskurðaráætlunum Trumps með því að auka fjármagn til rannsókna í landi sínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×