Erlent

Youtube-brella endaði með dauða kærastans

Kjartan Kjartansson skrifar
Byssan sem parið notaði var 50 kalíbera Desert Eagle.
Byssan sem parið notaði var 50 kalíbera Desert Eagle. Vísir/Getty
Nítján ára gömul stúlka í Minnesota hefur verið ákærð fyrir manndráp eftir að hún skaut kærasta sinn til bana. Kærastinn hafði fengið hana til að skjóta á bók sem hann hélt fyrir brjóstkassanum fyrir myndband sem þau ætluðu að birta á Youtube.

Stúlkan, sem er komin sjö mánuði á leið með annað barn hennar og kærastans, sagði lögreglu að kærastinn hefði viljað gera Youtube-myndband af henni að skjóta bókina. Fékk hann stúlkuna til að skjóta á sig með bókina fyrir brjóstina þar sem hann taldi að kúlan myndi stoppa í bókinni.

Hann hafi jafnframt sannfært hana um að það væri öruggt með því að sýna henni aðra bók sem hann hafði áður skotið á. Kúlan hafði ekki farið alla leiðina í gegnum hana. CNN segir að maðurinn hafi sett upp tvær myndavélar fyrir uppátækið og hafi vonast til að myndbandið færi í mikla dreifingu á netinu.

Byssukúlan fór hins vegar alla leið í gegn og lést maðurinn af skotsárinu. Lögreglan segir að stúlkan hafi skotið með 50 kalíbera skammbyssu af gerðinni Desert Eagle af um þrjátíu sentímetra færi. Maðurinn var 22 ára gamall.

Stúlkan á yfir höfði sér allt að tíu ára fangelsisvist verði hún fundin sek. Henni hefur verið sleppt gegn tryggingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×