Innlent

Hafa til skoðunar hvort upplýsingar í máli Bala séu réttar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Sektin í máli Bala nam um 30 þúsund krónum, að hans sögn. Hún var greidd nær samdægurs.
Sektin í máli Bala nam um 30 þúsund krónum, að hans sögn. Hún var greidd nær samdægurs. vísir/daníel
Útlendingastofnun hefur nú til skoðunar hvort umsögn lögreglu í máli Bala Kamallakharan, sem fjallað var um í gær, sé byggð á réttum upplýsingum.

Bala var synjað um íslenskan ríkisborgararétt í gær en synjunin er byggð á hraðasekt sem hann hlaut fyrir hálfu ári og hljóðar upp á um 30 þúsund krónur.

Í fréttatilkynningu frá Útlendingastofnun í dag kemur fram að stofnunin hafi til skoðunar hvort umsögn lögreglu til stofnunarinnar, sem gera má ráð fyrir að sé varðandi hraðasektina, hafi byggt á réttum upplýsingum. Berist Útlendingastofnun nýjar upplýsingar verður umsóknin skoðuð á grundvelli þeirra.

Þá segir í tilkynningunni að ekki sé rétt að stofnunin synji fólki um ríkisborgararétt fyrir að hafa fengið eina hraðasekt að lægri upphæð en 50 þúsund krónum. Enn fremur segir að ein stök sekt hafi aðeins í för með sér biðtíma ef hún er 50.000 krónur eða hærri. Stök sekt sem er lægri en 50.000 krónur hefur ekki í för með sér neinn biðtíma fyrir umsækjanda og kemur því ekki í veg fyrir að viðkomandi verði veittur ríkisborgararéttur að öðrum skilyrðum uppfylltum.

Bala er indverskur að uppruna og hefur látið mikið til sín taka í íslensku atvinnulífi en hann er meðal annars fjárfestir og upphafsmaður Startup Iceland. Þá hefur hann haldið fjölmarga fyrirlestra hérlendis um frumkvöðla- og sprotafyrirtæki, svo fátt eitt sé nefnt.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×