Áhorfendur fengu að fylgjast með Evu, Nooru, Isak og Sönu feta sig fyrstu tvö ár menntaskólans í Hartvig Nissen skólanum. Flestir höfðu þó búist við því að þáttaraðirnar yrðu sex talsins yfir öll menntaskólaárin þrjú og að áhorfendur fengju að fylgjast með undirbúningi Russe djammsins sem hefur verið miðpunktur söguþráðarins frá byrjun og var hvati þess að vinkonuhópurinn sem er í aðalhlutverki myndaðist.
Ákvörðunin um að hætta framleiðslu á þáttunum virðist hafa verið frekar skyndileg. Julie Andem, höfundur og leikstjóri þáttanna, birti yfirlýsingu á Instagram síðu sinni í apríl síðastliðnum þegar tilkynnt var að fjórða serían yrði sú síðasta.
„SKAM hefur verið 24/7 vinna. Það hefur líka verið ótrúlega gaman að vinna að þeim og ég trúi því að það gefi þáttunum einstaka orku og tryggt að Skam haldi áfram að koma á óvart og skemmta fólki. Við ákváðum nýlega að við munum ekki gera nýja þáttaröð í haust. Ég veit að margir verða vonsviknir og leiðir að heyra þetta, en ég er viss um að það sé rétt ákvörðun,“ skrifaði Andem.
Til að friða áhorfendur og binda um lausa enda fór síðasta vikan í að sýna brot úr lífi þeirra persóna sem ekki hafa fengið eigin þáttaröð. Áhorfendur fengu að kynnast heimilislífi hinnar óöruggu Vilde og sjá aðrar hliðar á hinni ofurhressu stelpu-Chris.
Kærastar aðalpersónanna sem hafa hingað til verið í aukahlutverki fengu líka sitt pláss. William, Even, Jónas og stráka-Chris fengu nokkrar mínútur sem settu sviðið fyrir lokaþáttinn þar sem allir hittast heima hjá Sönu og fagna lokum Ramadan föstunnar með Eid veislu.
Amerískir unglingar í norskum raunveruleika
Fyrir nokkru var tilkynnt að von væri á amerískri endurgerð af SKAM og að Simon Fuller, maðurinn á bakvið Idol þættina, muni annast framleiðslu þessa. Áætlað er að tökur á þáttunum hefjist í sumar og standi fram að jólum. Samkvæmt frétt á vef Svenska Dagbladet er það von Fuller að Julie Andem taki virkan þátt í endurgerðinni og að notast verði við upprunalegu persónunnar.
Það gæti þó orðið erfitt að endurgera þættina að fullu, enda byggir söguþráðurinn mikið á norskri unglingamenningu. Fuller virðist þó ætla að reyna sitt besta og verða, líkt og í norsku útgáfunni, notast við unga áhugaleikara til að þættirnir séu sem raunverulegastir. Þá verður einnig notast við það sýningarmynstur að setja hvert atriði inn á vef í rauntíma og smáskilaboð, Instagram færslur og fleira inn á milli svo að áhorfendum finnist þeir vera þátttakendur í atburðarrásinni.
Þættirnir þykja raunsannir og vegna þess að söguþráðurinn birtist áhorfendum í rauntíma virðist það mörgum erfitt að aðskilja persónurnar frá leikendum.