Innlent

Mörg mál Bjarkarhlíðar endað með kæru

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Bjarkarhlíð, miðstöð fyrir þolendur ofbeldis, hefur aðstoðað 103 þolendur frá því í byrjun mars þegar miðstöðin tók formlega til starfa. Flest málanna varða heimilisofbeldi þar sem þolendur eru konur. Mörg málanna hafa orðið grundvöllur sakamálarannsóknar hjá lögreglu.

Bjarkarhlíð er miðstöð fyrir þolendur ofbeldis sem tók formlega til starfa í byrjun mars á þessu ári. Bjarkarhlíð dregur nafn sitt af húsnæðinu sem Reykjavíkurborg leggur verkefninu til en það hefur verið í eigu borgarinnar síðan árið 1972. Markmið Bjarkarhlíðar er að veita stuðning og ráðgjöf, fyrir þolendur ofbeldis, ásamt fræðslu um eðli og afleiðingar ofbeldis.

„Síðan 2. mars, þegar það var formleg opnun, höfum við fengið 103 mál í hús og þar af 95 konur og 8 karlmenn,“ segir Ragna Björg Guðbrandsdóttir, verkefnastjóri Bjarkarhlíðar.

Um er að ræða allar tegundir ofbeldismála. Ef fólk telur sig hafa orðið fyrir ofbeldi og vill vinna með afleiðingar þess þá getur það leitað til Bjarkarhlíðar.

„Heimilisofbeldi er kannski stærsti flokkurinn sem við erum að sjá og þar hefur mikið að segja að það hefur orðið mikil vitundarvakning með breyttu verklagi lögreglunnar og samstarfi við félagsþjónustuna og barnavernd. Við komum svolítið í kjölfarið á því og njótum góðs af því,“ segir Ragna.

Það er lögreglukona í fullu starfi hjá Bjarkarhlíð. „Hún hefur talað við 53 einstaklinga og af þeim málum hafa 18 farið áfram í kæru til lögreglu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×